
Ekki verður staðið við búvörusamninga
15.12.2008
Samkomulag er orðið milli ríkisstjórnarflokkanna um að fella niður vísistölutengingu sem bundin er í búvörusamningum. Í stað þess að búvörusamningar verði vísitölutengdir að fullu verður miðað við þá krónutölu sem lagt var upp með þegar fjárlagafrumvarpið var fyrst lagt fram í byrjun október. Það þýðir að upphæðin sem rennur til búvörusamninganna verður 5 til 6 prósentum hærri árið 2009 en á hún var á fjárlögum líðandi árs. Verðbólguspár gera hins vegar ráð fyrir því að um mitt næsta ár verði verðbólgan um 15 prósent. Er þetta því skerðing á gerðum samningum upp á 9 til 10 prósent. Ef verðbólguspáin gengur eftir má gera ráð fyrir 700 til 800 milljóna króna skerðingu til bænda í heildina.
Einar Kristinn Guðfinnsson landbúnaðarráðherra segir að ákvörðunin sé tekin og að hún standi. „Það er samstaða milli ríkisstjórnarflokkanna um þessa ákvörðun og það er orðið ljóst að hún stendur. Ég játa það fúslega að þetta var ekki léttbært skref að taka en staðreyndin er sú að ég, eins og aðrir í ríkisstjórninni, stend frammi fyrir þessari hræðilegu stöðu. Þrátt fyrir þann niðurskurð sem boðaður er í fjárlagafrumvarpinu er búist við að ríkissjóður verði rekinn með 160 til 170 milljarða króna halla á næsta ári. Það svíður auðvitað einhvers staðar undan þegar þarf að skera niður með þessum hætti. Ég hafði sagt það að ég vildi í lengstu lög reyna að verja búvörusamningana en eftir mikla yfirlegu þá sáum við ekki aðra leið heldur en þessa.“
Einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar
Forystumönnum bænda var kynnt ákvörðunin í síðustu viku. Einar Kristinn segir að ekki sé um neitt samkomulag að ræða heldur sé þetta einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar. „Nei, það er ekkert samkomulag við bændur um þennan niðurskurð. Ég skil afar vel gremju bænda og ég veit að þeir eru lítt aflögufærir. Ríkissjóður er hins vegar í grafalvarlegri stöðu og menn verða að skilja það. Stærðargráða þessara skerðinga ræðst af verðbólgunni og við höfum von um að það takist að kýla hana niður svo að þessi ákvörðun hafi ekki eins mikil áhrif og nú er útlit fyrir. Til þess eru góðir möguleikar og við verðum bara að vona að það takist.“
Einar segir að ekki sé um að ræða einu samningana sem tengdir eru vísitölubótum sem verið sé að skerða. „Við neyddumst til að skerða flestalla samninga í almannatryggingakerfinu og það sama hlaut að eiga við um búvörusamningana. Þetta eru mér þung skref, ekki síst í ljósi þess að þetta er í fyrsta sinn í 22 ár sem við þurfum að grípa inn í búvörusamninga með þessum hætti.“ Spurður hvort ekki sé um að ræða brot á samningum sem samþykktir eru af Alþingi svaraði Einar því til að það væri rétt. „Það er í það minnsta ekki verið að efna þá að fullu.“
Samningsrofin eru ólöglegur gjörningur
Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands segir ákvörðunina mikil vonbrigði. „Þetta eru augljós samningsrof og í okkar huga er þetta auðvitað ólöglegur gjörningur. Við höfum þegar mótmælt þessari ákvörðun og komið þeim mótmælum ásamt áliti lögmanna á samningsrofinu til landbúnaðarráðherra. Við munum síðan fylgjast með hverju fram vindur í meðförum Alþingis á málinu því það er auðvitað ekki búið að samþykkja fjárlögin. Hins vegar er allt sem bendir til þess að þessi leið verði farin ef orð ráðherra um að samstaða sé milli ríksstjórnarflokkana um skerðinguna.“
Haraldur segir erfitt að meta fjárhagslegt tjón bænda vegna þessara samningsrofa, það ráðist af verðlags- og verðbólguþróun. „Við höfum hins vegar af þessu þungar áhyggjur og erum afar ósáttir við að samningar sem staðfestir hafa verið af Alþingi séu brotnir á þennan hátt. Við munum standa á rétti okkar eftir öllum leiðum.“