Beint í efni

Ekki hættulaust að hlaupa

17.05.2014

Víðavangshlauparinn Simon Coldrick má þakka sínum sæla fyrir að vera á lífi í dag en hann tók þátt í víðavangshlaupi nærri Sheffield í Bretlandi í liðinni viku. Simon þessi var kvikur á fæti og leiddi hlaupið um stund, en alls tóku 200 hlauparar þátt í þessu árlega víðavangshlaupi. Hann var þó heldur óheppinn þegar hlaupaleiðin lá um engi þar sem holdanaut voru á beit en ekki vildi betur til en svo að naut tók sig út úr hjörðinni og réðst á Simon. Nautið stangaði hann niður og í kjölfarið hlupu 20-30 holdakýr yfir kappann! Hann náði þó að bjarga sér með því að skríða inn í nálæga runna og forða sér þannig frá hinum úrillu nautgripum.

 

Fljótlega komu að aðrir hlauparar og aðstandendur víðavangshlaupsins og hlúðu þeir að Simon þar til læknalið kom honum til aðstoðar og fluttu á sjúkrahús í nágrenninu. Þurfti hann að gangast undir aðgerð þar sem járnplötu var m.a. komið fyrir í brjóstkassa kappans, enda mörg rifbein mölbrotin en hann slapp í raun furðu vel frá þessu óhappi. Hann mun ná að jafna sig að fullu segja forsvarsmenn hlaupsins en nú hefur einnig verið ákveðið að breyta hlaupaleiðinni, sem hefur verið óbreytt sl. 20 ár, svo ekki skapist sambærileg hætta á ný í komandi keppnum/SS.