Beint í efni

Ekkert lát á hækkunum á áburðarverði á heimsmarkaði

31.01.2008

Áburðarverð á heimsmarkaði og til bænda hefur hækkað ört á síðustu vikum. Mikil aukning á eftirspurn, ört hækkandi kornverð og framleiðsla á lífeldsneyti knýr þessa þróun áfram. Á heimasíðu Yara  er að finna verðþróun á helstu áburðarefnum. Verð er uppfært vikulega á ammóníum, þvagefni og kalkammóníumnítrati og iðulega er miðað við dollara fyrir hvert tonn. Meðfylgjandi línurit sýnir vikulegar verðbreytingar frá 5. janúar 2006 til 24. janúar 2008.

Frá því um mitt sl. sumar (5. júlí) hefur verð á ammóníum hækkað um 83%, þvagefni um 33% og kalkammóníumnítrati um 73%. Stór hluti þessa hækkana hefur orðið sl. þrjá mánuði en á þeim tíma hækkaði ammóníum um 67% og kalkammóníumnítrat um 43%. Þvagefni hefur hins vegar hækkað minna sl. þrjá mánuði eða um tæp 4%. Gríðarleg hækkun varð á fosfórsýru um áramótin en hún fór þá úr $563/tonnið í $1400/tonnið sem er hækkun um 149%.

 

Hækkanir á milli vikna
Samkvæmt Fertilizer Europe hækkaði verð margra áburðartegunda á helstu mörkuðum í Evrópu verulega frá 11. janúar til 25. janúar. Í Þýskalandi hækkaði t.d. verð á 15-15-15 (cif) um tæp 8%. Verð á DAP (díammoníumfosfat) (hæsta verð) hækkaði um 7,4% og CAN 27%, kalkamóníumnítrat (Magni) (hæsta verð) hækkaði um tæp 7%.

Á vef Yara á Íslandi er að finna graf sem sýnir verðþróun síðustu mánuði á CAN og NPK áburði í Þýskalandi, Danmörku og Svíþjóð. Verðhækkanir koma fyrr fram í Þýskalandi en í Svíþjóð og Danmörku sem virðist bera saman við þær upplýsingar sem BÍ fékk frá dönsku bændasamtökunum í síðustu viku. Þar kom fram að á árinu 2007 hefði áburður að jafnaði hækkað um tæp 20% frá ársbyrjun til ársloka. Í samtali við fulltrúa hjá tölfræðideild dönsku bændasamtakanna (Dansk landbrug) kom fram að þegar verð vantar á einstökum tegundum er notast við verð fyrra mánaðar. Af línuritinu á vef Yara sést að verðhækkanir á hráefnum á heimsmarkaði eru nú í janúar að koma fram af fullum þunga í verðlagi til bænda í Danmörku og Svíþjóð. Staðan á áburðarmörkuðum virðist því breytast hratt um þessar mundir. Eins og fram kom í viðtali við Esa Härmälä, framkvæmdastjóra EFMA í Bændablaðinu nýlega, bendir ekkert til þess að áburðarverð lækki í bráð.

/EB