Ekkert land í tröð hjá ESB
17.09.2007
Ráðherraráð ESB lagði þann 13. september sl. til að skylda um að leggja 10% ræktarlands í tröð, yrði afnumin frá og með haustinu 2007. Gildi sú skipan fyrir ræktunarárið 2007/8, þ.e. sáningu í haust og næsta vor. Til þessa hafa bændur í aðlildarríkjum sambandsins verið skyldaðir að taka 10% af ræktarlandi sínu úr umferð ár hvert. Þessari skipan var komið á þegar offramleiðsla var á korni í ríkjum sambandsins og því ætlað að koma í veg fyrir verðfall á korni en hin síðari ár hafa umhverfisverndarsamtök einnig hvatt til þess að hluti lands sé ávallt tekinn úr ræktun, vegna jákvæðra umhverfisáhrifa aðgerðarinnar.
Stefnubreyting ráðherraráðsins kemur að mestum hluta til vegna metverðs á korni og mikillar aukningar í eftirspurn. Nú er svo komið að kornbirgðir á lagerum ESB hafa minnkað úr 14 milljónum tonna fyrir ári síðan, í 1 milljón tonna. Þær birgðir eru að mestu leyti í formi maíss, sem geymdur er í Ungverjalandi.
Vænta má að þessar aðgerðir auki framboð á korni um a.m.k. 10 milljónir tonna. Í nóvember n.k. munu fara fram ítarlega umræður innan sambandsins um framtíð hinnar sameiginlegu landbúnaðarstefnu (CAP), sk. „heilbrigðisskoðun“ og hversu mikið land eigi framvegis að leggja í tröð. Þá verður einnig horft til þess hvernig megi varðveita þau jákvæðu áhrif á umhverfið sem fyrri skipan mála hefur haft.