Beint í efni

“Ekkert dregið úr óvissu frá eldgosi”

21.02.2011

Í síðustu sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins er ýtarlegt viðtal Péturs Blöndal og Ragnars Axelssonar við ábúendur á Önundarhorni undir Eyjafjöllum, Sigurð Þór Þórhallsson og Poulu Kristínu Buch. Viðtalið fer í heild sinni hér á eftir. Þá er einnig rætt við Runólf Sigursveinsson, ráðunaut hjá Búnaðarsambandi Suðurlands.

 

Ekkert dregið úr óvissu frá eldgosi

 

Það mæðir ekki lítið á ábúendum á Önundarhorni
undir Eyjafjöllum, fyrst kom bankahrun og
svo eldgos. Tekið var hús á Sigurði Þór og Poulu,
sem segjast enn búa við algjöra óvissu.

 

Það er nánast ómerkjanlegt á vegskiltinu hvar Önundarhorn
er staðsett, þar sem það er sandblásið eftir öskufokið af Eyjafjallajökli. En ef ekið er niður meðfram Svaðbælisá er það fyrsti bærinn sem verður fyrir manni. Eins og vant er, er vel tekið á móti gestum í sveitinni, kaffi í bollum og sykraðar rúsínur í skál, en ekkert sykrað við umræðuna. „Við erum í sömu stöðu og þegar eldgosið byrjaði,“ segir Sigurður Þór Þórhallsson
ómyrkur í máli. „Við erum í raun í biðstöðu það er algjör óvissa um hvað verður um búskap á þessari jörð.“

 

Enn flæðir leirinn yfir

Á Önundarhorni er stunduð nautgriparækt og mjólkurframleiðsla. En Svaðbælisá og Bakkakotsá eru stærsta vandamálið sem steðjar að búskapnum. „Nú hækkar og hækkar farvegurinn í þeim og það hefur áhrif á grunnvatnsstöðuna, „segir Sigurður. „Eins og þú manst kom leirflóð í árnar og það flæddi yfir tún og fyllti skurði. Nú er sagan að endurtaka sig hægt og bítandi, því fokið sem gerði nokkra daga í desember skóf sandinum í efstu skurði, fyllti þá og svo berst hann áfram niður í túnin, þannig að fleiri hundruð metrar eru bara sandskaflar. Þetta er því að fyllast smám saman aftur út
af framburði Svaðbælisár. Og við erum á nákvæmlega sama stað og í gosinu, ef eitthvað er, þá er óvissan meiri.“ Hann þagnar eitt augnablik. „En við getum víst ekki kennt bankanum um það, þó að það væri nú gott, “ klykkir hann út með og hlær. „Þó að hann sé máttugur,“ skýtur Poula Kristín Buch inn í, eiginkona Sigurðar. „Flestir bændur eru að spekúlera í að kaupa áburð, en það er hægt að gleyma því á þessari jörð í raun er allt að verða ein mýri,“ heldur Sigurður áfram. „Við getum því ekki tekið eina einustu ákvörðun um nokkurn hlut. Maður kaupir ekki áburð fyrir fimm milljónir og svo eyðileggst það. Auk þess er ekki hægt að keyra um efstu túnin, sem liggja næst ánni. Þau eru gegnsósa, í raun ónýt. Og búskapurinn byggist á því að fá hey. Nágranni okkar endurræktaði eitt túnið, en bara á nokkrum dögum í desember ,í roki með ösku, varð það ónýtt. Það þarf að vinna allt upp aftur.“ Hann bendir upp í fjallið. „Snjórinn er besti vinur okkar og okkar helsta von að hann haldist fram yfir Jónsmessu. “ „Sumarið var svo gott,“ segir Poula, „að maður var orðinn bjartsýnn. Á meðan gróðurinn var urðum við lítið vör við öskuna. En fyrir jól og aftur í janúar vöknuðum við upp við vondan draum, það sást varla á milli húsa í öskumistri. Þá áttuðum við okkur á að þetta var ekki nærri búið. Þegar ég keyrði heim úr vinnu varð ég að stoppa uppi á þjóðvegi, því ég lenti öskuskafrenningi, svo það buldi á bílnum. Það stórsér á tækjum og húsum og traktorinn þurfti að fara í dýra viðgerð. Viðlagasjóður bætir hinsvegar aðeins tjón sem verður
þegar askan fellur, en kallar það óbeint aska sem veldur tjóninu! Og þó að við höfum verið tryggð upp í rjáfur, þá bæta tryggingarnar ekki neitt, því þetta var eldgos. Þá er bara Bjargráðasjóður eftir, sem styrkir endurræktun til 1. apríl, en við
vitum ekkert hvað tekur við þá.“ „Svo heyrðum við í fréttum að Viðlagasjóður væri búinn að greiða háar fjárhæðir til bænda undir Eyjafjöllum, en það er ansi villandi, að minnsta kosti höfum við séð lítið af því,“ segir Sigurður. „Jú, við fáum peninga sem samsvarar einni umferð af málningu og grunnmálningu á þökin þó ekki öll þök svo verða hreinsaðar rennur og þakkantar. Og nágranni okkar á Seljavöllum, sem varð verst úti, hristi höfuðið þegar hann heyrði um allar milljónirnar sem við áttum að hafa fengið. Það er dælt peningum í allskonar stofnanir út af gosinu, en hann skilar sér ekki þangað sem maður hefði haldið að þörfin væri mest. En þetta er nú bara væll, “ segir hann og hellir sér kaffi í bolla. „Þetta eru bara peningar!“ Ákveðið var að koma á samráði á milli stofnana, sem veita aðstoð vegna eldgossins, og átti það að hefjast í janúar. „Við bíðum enn eftir að það fari í gang,“ segir Poula.

 

Ánægð með viðbrögð í gosinu

 „Ég var samt ánægð með viðbrögðin meðan á gosinu stóð, Almannavarnir, heilsugæsluna hér og Rauða krossinn, sem stóð upp úr. Það var haldið svo vel utan um okkur. Við komum úr skítaöskudrullunni með alla familíuna út á Heimaland, þá tók þetta indæla fólk á móti manni, við fengum við poka með snyrtidóti, sjampói og handklæði og sagt var við okkur: „Nú farið þið og þrífið ykkur! “ “ „Maður var svolítið verkaður,“ skýtur Sigurður inn í og hlær. „Það mynduðust líka góð tengsl, tvær konur voru algjörar hetjur, við komumst ekki inn í húsið nema faðma þær, þær grættu mig mörgum sinnum,“ segir Poula. „Þær voru svo góðar við litlu stelpurnar okkar, að í hvert skipti sem við ökum um Hvolsvöll kemur ekki annað til greina hjá þeirri yngstu en að koma við og faðma Hrafnhildi!“ Og Poula er ánægð með fleira. „Meðan á gosinu stóð vaktaði sérsveitin frá Ríkislögreglustjóra svæðið á nóttunni. Við fengum yfirleitt símtal um ellefuleytið: „Hæ, hvernig hafið þið það? Við vildum láta vita að við erum hérna á ferðinni.“ Það var svo vinalegt og segja svo góða nótt! Það var gott að vita af þeim þegar við fórum að sofa. Þegar við vorum fjarri fylgdust þeir með mannaferðum, því það
voru þjófagengi á ferð. “ Þegar eldgosið stóð yfir var því allt mjög skilvirkt og til fyrirmyndar. „En þegar lengra hefur liðið frá og maður tekst á við afleiðingar gossins, tjónið á eignum og
annan skaða, þá virðist áhuginn ekki lengur fyrir hendi,“ segir Sigurður. Þegar Sigurður og Poula voru að byggja upp búskapinn á Önundarhorni tóku þau erlend lán og lentu þau illa úti í hruninu. „Við áttum að fara í sértæka skuldaaðlögun, vorum byrjuð í því ferli fyrir gos, “ segir Poula. „En svo skellur gosið á okkur og þá var farið fram á að bankar sýndu okkur sem búum á svæðinu biðlund. En við vorum í viðskiptum í Arion banka og
hann var mjög ósveigjanlegur. Þar var þess krafist að við breyttum erlendu lánunum í íslensk, annars fengjum við ekki að fara í sértæka skuldaaðlögun. Okkur var sagt að hún tæki aðeins einn og hálfan mánuð, það var sagt við alla bændurna
sem voru í þessari stöðu. En svo eru mjög fáir í kringum okkur farnir að ganga frá samningum um skuldaaðlögun, hér
um bil ári seinna. Aðalatriðið virðist hafa verið að breyta
erlendu lánunum í íslensk. Og þegar við spurðum um kostnaðinn af þeim, eftir að breytingin gengi í gegn, var okkur sagt að
við bærum engan teljandi kostnað af því, af því að skuldaaðlögunin átti að ganga í gegn á fjórum til sex vikum. „
„En það er skondið, að samningurinn sem þeir sýndu okkur núna í janúar, þegar loks bárust pappírar frá þeim, var lélegri
en sá sem þeir buðu okkur fyrir hrun, “ segir Sigurður. „Ég veit ekki hvort þeir átta sig á því, að við tölum saman bændur.
En þeir klína á okkur vöxtum og kostnaði við lánið í eitt ár, en hinir bændurnir þurfa ekki að bera þann kostnað. Hvers vegna
skyldi það vera? Er það kannski af því að við fengum okkur lögfræðing og stefndum bankanum út af erlendu lánunum? „
Hann þagnar. „Það hringdu allir gemsar á meðan gosið stóð yfir: „Þið verðið að skrifa undir.“ Við sögðum erfitt að skrifa undir skuldbindingar á meðan óvissan væri algjör, en þeir sögðu: „Skrifið undir og við skoðum þetta seinna, bara skrifið undir.“
„Við þekkjum fullt af bændum fyrir utan Markarfljót,“ segir Poula. „Við spurðum þá, hvort bankarnir lægju í þeim. „Nei, þeir vilja ekkert við okkur tala,“ sögðu þeir. En þeir vildu að við skrifuðum undir.“ Tilboðið til þeirra fól í sér að greiðslur næstu þrjú árin miðuðust við hverju ná mætti út úr rekstrinum, en önnur lán yrðu sett í bið í þrjú ár og þá yrði staðan metin að nýju. „En hvað ætti svo sem að breytast á þessum þremur árum?“ spyr Sigurður. „Við höfum enga tryggingu fyrir því, ef
við berjumst í þessu næstu þrjú árin, að það verði hlustað á okkur þá! “

 

Stjórnvöld stóðu ekki með fólkinu
Og þau eru ekki ánægð með úrræðaleysi stjórnvalda. „Síðasta sumar féll dómur í Hæstarétti um að tenging við erlenda gjaldmiðla væri ólögleg, “ segir Sigurður. „Og nú féll annar dómur í vikunni, sem tók undir það. Bankarnir vissu vel að lánin
væru ólögleg þegar við tókum erlent lán árið 2007 en á sama tíma voru þeir að vinna að því á annarri hæð í húsinu að fella
gengi krónunnar að vinna gegn þeim kjörum sem okkur var lánað á. Það finnst mér vera stóri glæpurinn.“
Og Poula tekur undir með honum. „Þá átti ríkisstjórnin að stíga fram og segja að dómur Hæstaréttar stæði, hann ætti við
um öll lán. En hvað gera þau? Þau siga Seðlabankanum á okkur og um leið urðu lánin okkar óhagstæð aftur. Bankarnir voru verðlaunaðir. Hvað hefði gerst ef ég hefði gert þetta, svikið einhvern svona eins og þeir hafa svikið okkur. Get ég véfengt
hæstaréttardóma, bara venjulegur Jón Jónsson?“ Sigurður fær ekki orða bundist. „Það er gríðarleg óvirðing að gera lítið
úr hæstaréttardómum þegar þessu fólki hentar. Nú hafa þessir prelátar gert lítið úr þremur hæstaréttardómum. Svo hugsa
þeir bara um stjórnlagaþing! í stað þess að taka pólitíska ákvörðun byggða á hæstaréttardómunum, var snúið út úr þeim og gert lítið úr fólkinu sem þar vinnur.“ Það er dagatal í glugganum á eldhúsinu með myndum af sólblómum og heilræðum: „Haltu þig við vinnuna þó illa gangi. Þegar þú átt sem erfiðast máttu ekki gefast upp.“ Á veggnum hangir margföldunartaflan sem ein af fjórum dætrum hefur skrifað
með bláum og rauðum lit. Þar eru tvisvar tveir fjórir, en svo reyndist ekki vera í raunheimum. „Þetta er svona heimilismargföldun, ekki banka,“ segir Sigurður.
„Það koma að minnsta kosti réttar tölur út.“ „Okkur líður vel þegar það eru góðir dagar,“ segir Poula. „Rigning og bylur, það eru góðir dagar,“ segir hann og hlær. „Þetta er fjórtánda
árið okkar, uppbyggingin hefur verið markviss, engin galgopastökk. Við keyrum ekki um á dýrum bílum eða kaupum flatskjá. Allt hefur ferið í uppbygginguna og við berjumst áfram. En ef erlenda lánið fellur, þá erum við farin á hausinn, af því að það stökkbreyttist við fall krónunnar. Annað sem gerðist þegar
krónan féll, er að öll aðföng snarhækkuðu.“ Það þyngist brúnin.
„Og af hverju féll krónan? ! „

 

Óvissa mikil um framtíðina

Staða margra bænda á Suðurlandi er alvarleg, en þó ekkert mjög ólík því sem aðrar atvinnugreinar standa frammi fyrir, að sögn Runólfs Sigursveinssonar, ráðgjafa hjá Búnaðarsambandi Suðurlands. „Þetta gengur mjög hægt,“ segír hann. „Það eru að
verða tvö og hálft ár frá því ósköpin dundu yfir og því miður eru búin mörg sem ekki hafa neina fótfestu ennþá, hvernig málum þeirra reiði af í bönkunum. Það hefur gengið hægt að fá varanlegar lausnir, sérstaklega fyrir bændur.“

 

Þol fólks ekki endalaust
Þær lausnir sem hafa verið í boði eru að mati Runólfs ekki ákjósanlegar. „Það sem ertil dæmis í boði hjá Arion banka gagnvart skuldsettum búum er eitt rekstrarlán, sem miðast við hvað reksturinn geturtekist á við af greiðslum, og síðan töluverður stabbi af öðrum lánum, sem eru sett sem biðlán til þriggja ára,“ segir hann. „í raun og veru veit enginn hvað gerist eftir það. Það er mjög erfitt fyrir þessar fjölskyldur að takast á við stöðuna þegar óvissan er svona mikil um hvað framtíðin
ber í skauti sér. Það setur allar fjárfestingar oguppbyggingu til framtíðar í uppnám. Og fólkið sem lendir í þessu er kynslóðin sem ber framleiðsluna uppi næstu áratugi, en það er ljóst að sum þessara búa munu ekki gera það.“ Ef svo heldur áfram sem horfir er líklegt að einhver bú muni leggjast af. „Þol fólks er ekki endalaust að takast á við óvissu,“ segir Runólfur. „Ég hygg að einhverjar fjölskyldur muni einfaldlega segja sem svo að
nú sé nóg komíð og leita sér að öðrum störfum.“ Svo bættist eldgosið ofan á bankahrunið. „Áhrifasvæði eldgossins er ekki mjög stórt að umfangi, en það hefur raunveruleg áhrif á allmörg bú á einn eða annan hátt,“ segir Runólfur. „Bjargráðasjóður hefur komið til móts við ákveðið tjón sem varð, veitt aðstoð varðandi heykaup og í sumum tilvikum sinnt flutningum á gripum á önnur svæði. En þessi fjárhagslegi skellur sem búin urðu fyrir er ekki allur kominn fram og við vitum ekki hver hann verður. Allvíða þarf að takast á við endurræktun túna, sem vonandi fæst stuðningur til að takast á við í gegnum Bjargráðasjóð.“

 

Gerist ekki á einu vori

Eru til fjármunir þar? „Það er rétt að taka fram, að stjórnvöld veittu fjármuni í Bjargráðasjóð sérstaklega út af gosinu. En það
er ljóst að sá tímarammi sem þar var miðað við teygir sig yfir lengri tíma. Það var miðað við að tjónamati yrði lokið á vordögum og bætur þá greiddar út, þ.e. reglugerðin
um Bjargráðasjóð rennur út í apríl. Ég vonast til að hægt verði að ná fram breytingu á því og framlengja tímann um eitt ár til viðbótar.“ – í þessu sem öðru þarf fólk að búa við óvissu, t.d.
á Önundarhorni? „Þetta er allt til bráðabirgða og þau þurfa að takast á við endurræktun í heild sinni á jörðinni. Það gerist
ekki á einu vori.“

 

pebl@mbl.is

rax@mbl.is