Einstök sérstaða, sameiginlegt hagsmunamál bænda og neytenda
11.04.2016
Í liðinni viku stóð Matvælastofnun fyrir ársfundi sínum en þema dagsins var „Hagur neytenda“. Á ársfundinum, sem m.a. Arnar Árnason formaður LK sat, voru flutt átta erindi sem nú eru aðgengileg á vef Matvælastofnunar. Að sögn Arnars var fundurinn afar áhugaverður: „Það kom skýrt fram á fundinum hve mikil sérstaða Íslands er, sér í lagi þegar horft er til lítillar sýklalyfjanotkunar í landbúnaði hér á landi, sem og varðandi ýmiskonar aðskotaefni í landbúnaðarafurðum eins og skordýaeitur o.þ.h. Allar tölulegar upplýsingar benda þar í sömu átt og þetta er eitt af sameiginlegum hagsmunamálum okkar og neytenda, þ.e. að viðhalda þessari góðu stöðu. Það er dagljóst að við þurfum og verðum að halda áfram að berjast fyrir þessari miklu og einstöku sérstöðu sem við búum yfir, eitthvað sem bændur og neytendur annarra þjóða njóta ekki í dag og munu vart njóta í nánustu framtíð“, sagði Arnar í viðtali við naut.is.
Arnar gat þess einnig að bændur þurfi að byggja upp betra og jákvæðara samband við Matvælastofnun. „Það eru margir fletir sem við getum fundið sameiginlega í þeim efnum og það er í raun óþolandi að einu fréttirnar eða umfjallanirnar um samskpti Matvælastofnunar og bænda séu á neikvæðum nótum. Við eigum og getum bætt þarna úr og unnið betur saman“, sagði Arnar að lokum.
Þeir sem vilja kynna sér nánar efni ársfundar Matvælastofnunar geta gert það með því að smella hér en þá opnast gluggi inn á vef Matvælastofnunar með yfirliti ársfundarins og með hlekkjum á flutt erindi/SS.