Beint í efni

Einstaklingsmerkingar í áratug

03.09.2013

Þann 1. september sl. voru liðin 10 ár frá því að reglur um einstaklingsmerkingar nautgripa tóku gildi hér á landi. Málið átti talsverðan aðdraganda og ályktaði aðalfundur LK nokkrum sinnum um nauðsyn þess að taka upp einstaklingsmerkingar, m.a. á aðalfundi samtakanna 1999, sem haldinn var í Skagafirði. Þá skoraði aðalfundur LK 2001, haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit, á ráðherra landbúnaðarmála að setja hið fyrsta reglugerð um einstaklingsmerkingar. Í umræðum á þeim fundi kom m.a. fram að slíkar merkingar gæfu kost á auknum rekjanleika afurðanna og betri yfirsýn yfir nautakjötsmarkaðinn. Frá sjónarhóli kynbótastarfsins sáust miklir möguleikar á að einstaklingsmerkingar myndu auka gæði skýrsluhaldsgagna, ásamt því að tryggja ættfærslur gripa mun betur en áður. Betri ættfærslur myndu auka erfðaframfarir umtalsvert. Þá eru merkingar af þessu tagi mikilvægt verkfæri í daglegri bústjórn. Einstaklingsmerking þýðir að hver gripur sem settur er á fær einkvæmt númer, sem samanstendur af býlisnúmeri og raðnúmeri innan býlis. Þetta númer er á plastmerkjum sem sett eru í sitthvort eyra gripanna á fyrsta mánuði ævinnar.

 

Þegar horft er til baka yfir þetta 10 ára tímabil er óhætt að segja að þær væntingar sem gerðar voru til merkinganna hafi í öllum megin atriðum gengið eftir. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan, fjölgaði ættfærðum kvígum verulega við upptöku einstaklingsmerkinga. Á árunum 1995-2002 voru um 8.000 kvígur ættfærðar ár hvert. Árið 2003 fjölgaði þeim upp í 9.500 og árið 2004, fyrsta heila árið þar sem merkingarnar voru við lýði, voru rúmlega 10.300 kvígur skráðar í ætternisgrunn nautgriparæktarinnar. Þá hafa ættfærslurnar sjálfar batnað til mikilla muna.

 

 

Hvað nautkálfana varðar, er munurinn enn dramatískari en hjá kvígunum. Sáralítið af nautkálfum hafði verið skráð í ætternisgrunn nautgriparæktarinnar árin á undan, en sú staða gerbreyttist við upptöku einstaklingsmerkinganna. Með henni er mögulegt að fá góða yfirsýn yfir nautakjötsmarkaðinn og þróun ásetnings kálfa til kjötframleiðslu./BHB