Beint í efni

Eins dauði…

24.07.2015

Eins og við sögðum frá um daginn þá gengur rekstur breska samvinnufélagsins FirstMilk alls ekki vel en það sama á ekki við um einn keppinaut félagsins, Müller Dairy. Það félag er með afar sterka fjárhagsstöðu og á sama tíma og FirstMilk gefur út hverja tilkynninguna á fætur annarri um niðurskurð eða lækkun afurðastöðvaverðs þá stendur Müller Dairy í ströngu við uppbyggingu og tilfærslu í rekstri.

 

Nýjasta framkvæmdin er stækkun á jógúrt og eftirréttagerð í Shrop-skíri í Englandi. Þar starfa reyndar fyrir all nokkrir starfsmenn, eitt þúsund talsins, en aukningin að þessu sinni skýrist af nýjum samningum Müller Dairy við smásöluaðila um einkamerkingar á framangreindum vörum. Nafn Müller Dairy mun því hvergi koma fram á vörunum, einungis nafn eða vörumerki viðkomandi smásöluaðila. Margir vilja reyndar meina að skref sem þetta sé ekki gáfulegt, þar sem afar auðvelt er að skipta um framleiðanda á vörunni – semjist ekki í næsta skipti. Svo virðist sem Müller Dairy hafi þó ekki miklar áhyggjur af slíkum vangaveltum/SS.