Beint í efni

Einhugur á meðal bænda við lok Búnaðarþings 2009

04.03.2009

Búnaðarþingi er lokið en því var slitið á áttunda tímanum í kvöld. Alls voru 34 mál afgreidd á þinginu og var áberandi einhugur meðal þingfulltrúa um afgreiðslu þeirra. Ber þar helst að nefna eindregna afstöðu gegn aðild að Evrópusambandinu, tekið var undir breytingartillögur sem stjórn BÍ hefur lagt fram við matvælafrumvarpið, tillögu um að hluta af fé Bjargráðasjóðs verði varið til að styrkja bændur til áburðarkaupa á komandi vori, að vinna skuli heildstæða úttekt á hvernig matvælaöryggi þjóðarinnar verði tryggt og að innheimta búnaðargjalds verði endurskoðuð. Einnig var ályktað um mikilvægi landbúnaðar en þingið telur í því sambandi að skapa þurfi þverpólitíska sátt um landbúnað á Íslandi.

Búnaðarþing lýsti óánægju sinni með að ekki skuli staðið við búvörusamninga enda nauðsynlegt að bændur búi við festu í samningum sínum við ríkisvaldið. Að sama skapi samþykkti þingið ályktun þar sem áhersla var lögð á að tryggja þyrfti rekstraröryggi landbúnaðarins. Leita þurfi varanlegra lausna sem að eyði þeirri óvissu sem nú er uppi varðandi rekstur búanna.

Þrír þingfulltrúar lýstu því yfir að þeir myndu ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu á Búnaðarþingi í komandi kosningum til þingsins, þau Rögnvaldur Ólafsson, Þórólfur Sveinsson og Birna Þorsteinsdóttir. Færði þingheimur þeim þakkir fyrir störf sín í þágu félagskerfis bænda í gegnum tíðina.

Mál sem að afgreidd voru á Búnaðarþingi 2009 eru öll aðgengileg hér á vefnum ásamt ályktunum.

Afgreidd mál