Beint í efni

Eiga bændur von á heimsókn?

30.11.2009

Eftirfarandi pistill Haraldar Benediktssonar, formanns BÍ var birtur á heimasíðu Bændasamtaka Íslands á föstudaginn:

 

„Fundargestir á bændafundum undanfarinna vikna senda skýr skilaboð til þeirra sem starfa að hagsmunamálum bænda og þeirra sem náðu kjöri í síðustu alþingiskosningum. Við, bændur, gerum okkur vel grein fyrir þeim miklu vandamálum sem steðja að. Bændur hafa sterka stöðu hjá þjóðinni, því líkt og ætíð hefur staðið upp úr í málflutningi bænda þá hvílir samfélag okkar ekki síst á þeirri gildu stoð sem landbúnaður er. Það endurspeglast núna, en því miður í ljósi skelfilegra atburða í fjármálaheiminum. 

Af mörgum málefnum bændafunda hefur umræða um aðlögun að aðild að ESB verið áberandi. Við yfirferð á stöðu málsins er ekki hægt að segja annað en Ísland sé á hraðleið inn í sambandið. Engar samningaviðræður, líkt að mikið er reynt að halda á lofti, eru í raun að fara fram. Við höfum sótt um aðild að félagsskap og reglur félagsins eru skýrar. Áhyggjur bænda felast m.a. í að engin trú er á pólitískri forystu í aðildarferlinu. Ekki er hægt að orða það neitt snyrtilegra en að forráðamaður aðildarferlisins, utanríkisráðherra, nýtur ekki trausts til að gæta hagsmuna landbúnaðarins. Ekki er heldur fullkomin trú manna á að samstarfsflokkur hans hafi stöðu og styrk til að halda á málinu gagnvart eimreið aðildarsinna í ríkisstjórninni. Veruleikinn er sá að pólitísk forysta málsins er mjög veik.
Það er ofarlega í hugum bænda að forysta þeirra sjálfra, Bændasamtökin, láti ekki draga sig um of í hringiðu ESB-samninga. Þeim er ekki um það gefið að láta draga samtök sín til ábyrgðar á niðurstöðu „aðildarsamnings“. Þessi aðvörunarorð bændanna eigum við sem í forsvari þeirra stöndum að hlusta á. Við verðum að gæta okkur á að ekki myndist vík á milli bænda og forystu þeirra. Vissulega er Ísland ekki orðið aðili. En það er ekkert sem segir að svo verði ekki nú þegar ríkisstjórnin hefur sótt um. Það er ekki um að ræða að skoða málið hlutlaust og láta þjóðina meta hvað er í boði. Það mat verður ekki hlutlaust. Það er ekki til að hjálpa til við hlutlausa og yfirvegaða skoðun að ESB undirbýr opnun á 10 til 12 manna sendiráði hér á landi.

Áróðursstríðið er hafið. Nú hafa verið fluttar fréttir af því að ESB telji grunn að hagtölum landbúnaðarins ónýtan af því að Bændasamtökin komu að söfnun þeirra. Ekki megi nota tölur sem hagsmunasamtök safni þó það hafi verið gert árum saman eftir löggjöf sem sjálft alþingi hefur sett og stjórnvöld falið Bændasamtökunum. Ég hef þá skoðun að þetta upphlaup sé ekki síst til þess ætlað að kasta rýrð á Bændasamtökin. Gera málflutning þeirra ótrúverðugan.

Geta bændur nú átt von á embættismönnum, líklega frá Brussel, til að telja í fjárhúsum og fjósum þeirra? Engum öðrum er treystandi að gera það rétt. Það hefur svosem verið gert áður“.

Haraldur Benediktsson