
Ég er íslenskur bóndi!
31.03.2018
Sól hækkar á lofti og óþreyja færist í mannskapinn, vorið er að detta inn og bændur landsins í startholunum að takast á við verkefni sumarsins. Það hefur verið bjart í íslenskum kúabúskap síðustu árin. „Heimsmet“ var slegið á síðasta ári í innvigtun, 151 milljónir lítra, og útlit er fyrir að það verði enn meiri mjólk framleidd á Íslandi á þessu ári. Meðalnyt eykst stöðugt, mikið er byggt og aðstaða gripa og manna batnar ár frá ári. Það olli nokkrum áhyggjum á sínum tíma þegar nýr búvörusamningur tók gildi, að búum myndi halda áfram að fækka og að hugsanlega kæmi upp sú staða að íslenskir kúabændur gætu ekki annað eftirspurn eftir íslenskri mjólk á markaði. Það hefur svo sannarlega komið í ljós að þær áhyggjur reyndust óþarfar og er nú framleitt sem aldrei fyrr í íslenskum sveitum og ekki annað að heyra en að bændur séu almennt bjartsýnir á framhaldið.
Undanfarið hafa tveir hópar á vegum LK verið að vinna að stefnumótun fyrir greinina til næstu tíu ára. Annars vegar er það hópur sem við höfum kallað mjólkurhóp og hins vegar er það kjöthópur. Ákveðið var að vinna stefnumótun að þessu sinni í tvennu lagi til að gefa kjötmálunum aukið vægi í vinnunni. Það hefur mjög færst í vöxt síðustu árin að bændur einbeiti sér að framleiðslu nautakjöts í stað þess að hafa þá framleiðslu eingöngu sem hliðargrein við kúabúskapinn, þess vegna var ákveðið að fara þessa leið í stefnumótunarvinnunni.
Nokkur hrollur fór um kjötgreinarnar allar á Íslandi þegar EFTA dómstóllinn úrskurðaði það óheimilt að takmarka innflutning á fersku kjöti til landsins. Skemmst er frá því að segja að nokkur óvissa ríkir enn um það hvernig brugðist verði við þessum úrskurði en óhætt er að segja að drjúgur tími starfsmanna hagsmunagæsufélags kúabænda, LK, hefur farið í að greina og þrýsta á ráðamenn varðandi að gefa nú skýr svör um viðbrögð við þessu. Þessu tengt hafa bæði formaður og framkvæmdastjóri hitt ráðherra landbúnaðarmála nokkrum sinnum og átt góðar umræður um málið. Vonandi skilar það sér en í máli sem þessu sýnir það sig best hversu mikilvægt það er að bændur eigi sér öflugt hagsmunafélag sem hefur bolmagn til að sinna málum sem þessum. Það kemur svo sannarlega ekki af sjálfu sér og ef við bændur stöndum ekki sjálf vörð um okkar mál þá er það alveg öruggt að það gerir það enginn fyrir okkur. Það lendir á höndum embættismanna ráðuneyta að taka ákvarðanir fyrir okkar hönd ef við gerum það ekki sjálf og hver ætlast til að það komi eitthvað útúr því? Nú er ég ekki að halda því fram að í ráðuneytunum vinni fólk sem er eitthvað sérstaklega á móti bændum eða búskap, þvert á móti, en í alvöru! hvernig er hægt að ætlast til þess að fólk taki ákvarðanir án þess að þeim sé haldið upplýstum af aðilum sem þekkja málin frá fyrstu hendi?
Tollmálin eru bændum greinilega nokkuð hugleikin þessi misserin enda tekur margumræddur Tollasamningur Evrópusambandsins gildi nú í byrjun maí, eða á ég kannski að segja tollasamningur Sigurðar Inga? Það kannast einhvernveginn enginn við að hafa viljað gera þennan samning og engu líkara en að Sigurði Inga hafi bara dottið þetta hug, skottast til Brussel og gert þennan skelfilega samning þar sem Evrópusambandinu var veitt ótrúlega stór skerfur af íslenskum mjólkurvörumarkaði. Það eru að mínu mati lélegar söguskýringar að benda á einn mann sem allsherjar sökudólg í máli sem tengist milliríkjaviðskiptum og lyktar óneitanlega af pólitískum skrípaleik. Ábyrgðin er þeirra sem stóðu í brúnni á þeim tíma sem samningurinn var gerður! Annað er ótrúverðugur málflutningur.
Eins er með þessi mál og hráakjötsmálið, enginn veit nákvæmlega hvaða áhrif samningurinn kemur til með að hafa enda hefur engin vitsmunaleg tilraun verið gerð af hálfu opinberra aðila til að meta áhrifin. Bændasamtökin hafa nú, ásamt flestum búgreinafélögunum, hafið vinnu í samstarfi við innlent ráðgjafafyrirtæki og norska lögfræðistofu til að meta áhrifin og að setja fram töluleg gögn í málinu. Við bindum miklar vonir við þetta starf og ákvað stjórn LK að taka fullan þátt í verkefninu enda um gríðarlegt hagsmunamál að ræða.
Á komandi aðalfundi Landssambands kúabænda, sem haldinn verður dagana 6.-7. apríl n.k. , koma sennilega tvö mál til með að bera hæst í vinnunni. Annað málið er atkvæðagreiðsla um endurskoðun á búvörusamningnum sem mun fara fram á næsta ári, en ég reikna með að sú vinna fari að stórum hluta fram á þessu ári. Endurskoðunarnefnd búvörusamninga hefur nú verið skipuð í þriðja sinn og ætlar sér að skila áliti sínu í lok þessa árs. Hitt málið er atkvæðagreiðslan um kvótakerfið. Starfandi mjólkurframleiðendur koma til með að greiða um það atkvæði í byrjun næsta árs, hvort þeir vilji halda í framleiðslustýringarkerfi í mjólkurframleiðslunni. Í könnun sem stjórn LK lét gera fyrir aðalfundinn 2017 kom í ljós að mikill meirihluti kúabænda á Íslandi vill viðhafa framleiðslustýringu í greininni. Það er ætlunin að nota aðalfundinn til að ræða þessi mál, skiptast á skoðunum, og komast að niðurstöðu í málinu. Ég reikna með að aðalfundurinn feli stjórn LK að vinna málið í samræmi við umræður og koma með tillögur sem kynntar verði á haustfundum LK. Þannig verði tryggt að allir komi að kjörborðinu með opin augun og viti nákvæmlega hvað það felur í sér að kjósa með framleiðslustýringarkerfi og á móti framleiðslustýringarkerfi.
Ágætu lesendur. Það eru á hverjum tíma ógnanir og tækifæri í mjólkurframleiðslu á Íslandi, þannig hefur það alltaf verið. Við höfum í áratugi þurft að takast á við aukinn innflutning, það kemur ekkert til með að breytast, en það besta sem við getum gert til að gera greinina okkar samkeppnishæfari og betur í stakk búna fyrir framtíðina er einmitt að gera það sem við höfum alltaf verið að gera. Sækja fram, þróa búskapinn okkar, tæknivæðast og tileinka okkur nýjungar í greininni. Það væri afar ósanngjarnt að halda því fram að það hafi litlar eða engar framfarir átt sér stað í mjólkurframleiðslu hér á landi. Íslenskur landbúnaður er ekki eftirbátur annarrar framleiðslu hér á landi þegar kemur að hagræðingu og framþróun í heild.
Við erum íslenskir bændur og erum stolt af því að framleiða hér framúrskarandi matvæli við aðstæður sem eru einstakar á heimsvísu. Landið okkar er hreint, vatnið okkar er hreint, búfjárstofnarnir okkar eru hreinir og afurðirnar okkar hreinar. Aðstæður hér eiga eftir að veita okkur forskot í framtíðinni ef vel er á spilum haldið, en landbúnaður á Íslandi er pólitísk ákvörðun og þegar við höfum kjark til að standa upp og segja „ Ég er íslenskur bóndi“ þá mun okkur farnast vel.
Föstudaginn langa á Hranastöðum
Arnar Árnason