Beint í efni

Efst á baugi

04.07.2020

Í mörgu hefur verið að snúast undanfarið hjá Landssambandi kúabænda. Auðvitað hafa undanfarnir mánuðir verið sérstakir á margan hátt og ber þá hæst heimsfaraldurinn Covid-19. Sökum hans höfum við meðal annars ekki náð að halda aðalfundinn okkar ennþá og því bíða ályktanir aðildarfélaga okkar afgreiðslu, en stjórn LK stefnir nú að því að fundurinn verði haldinn fyrstu helgina í nóvember. Verður dagsetningin staðfest við fulltrúa og auglýst nánar á næstu dögum.

Ostur tollaður sem jurtavara

Svo stiklað sé að stóru varðandi verkefni okkar undanfarið þá ber kannski hæst „stóra ostamálið” en mikill tími fór hjá framkvæmdastjóra og formanni að berjast við kerfið okkar varðandi tollflokkun á jurtaosti sem hingað hefur verið fluttur. Þannig er í pottinn búið að hingað hefur verið fluttur, um alllangt skeið, ostur sem er að meginstofni eða 82-84% mozzarellaostur og einungis 11-12% pálmaolía og hefur verið flokkaður sem jurtaostur vegna þess. Eðlilegt er að ráðandi innihaldsefni sé stýrandi fyrir tollflokkun á vörum en ekki aukaefni og þar sem jurtaostur er tollfrjáls hér á landi var þetta gríðarstórt og augljóst hagsmunamál fyrir okkur kúabændur. Til að átta sig hagsmununum sem um ræðir þá nam innflutningur á þessari vöru árið 2019 um 300 tonnum eða sem samsvarar 3.000.000 lítra mjólkur, sem er um 2% af heildar mjólkurframleiðslu Íslands þess árs.

Það er skemmst frá því að segja að með samstilltu átaki BÍ og LK náðist fullnaðarsigur í þessu máli og er téður ostur núna flokkaður á sama hátt og annar mjólkurostur, eins og rétt er að gera og öll nágrannalönd okkar gera einnig. Það er á svona stundum sem glögglega sést hversu mikilvægt er að hafa öflug hagsmunasamtök sem LK og BÍ eru.

Starfshópar endurskoðunar búvörusamnings

Áfram heldur svo vinnan við að útfæra og klára alla vinnu varðandi endurskoðun búvörusamningsins. Eins og flestir vita voru stofnaðir þrír vinnuhópar sem falið var að skoða mismunandi hluta samningsins og ljúka útfærlsu á. Vinna þessara hópa hefur dregist á langinn, aðallega vegna Covid og áhrifa þeirra mála á alla fundarsetu og virkni innan stjórnsýslunnar þar sem aðaláherslan var á aðgerðir vegna faraldursins.

Starfshópur um verðlagsmál fékk það verkefni að greina og koma með tillögur um hvað betur megi fara í verðlagningakerfinu okkar þar sem helstu efnisatriðin eru aðskilnaður á söfnun og sölu mjólkur sem og verðlagning á heildsölustigi og til okkar bænda. Þessi hópur situr nú að störfum en sökum tafa og yfirstandandi sumarleyfa verður frekari fundum frestað til haustsins.

Starfshópur um loftslagsmál hefur lokið störfum og var skýrsla úr þeirri vinnu birt hér á naut.is þann 26. júní síðastliðinn. Þar er lögð áhersla á að þau gögn sem liggja til grundvallar losunarbókhaldinu í nautgriparækt verði bætt og mikilvægi þess að bændur hafi aðgang að sem bestum gögnum um losun frá sínum búum, séu meðvitaðir um hana og þá möguleika sem þeir hafa til að draga úr henni. Fjármunir sem verða til ráðstöfunar eftir endurskoðunina 2023 verði síðan nýttir til að ýta undir beinar aðgerðir á búunum.

Svo er það starfshópur um aðlögunarsamninga, minni bú o.fl., sem undirritaður situr í, en þangað var vísað til umfjöllunar skattamálum, aðgerðum fyrir minni bú og umfjöllun um aðlögunarsamninga eins og gerðir voru í sauðfjársamningum. Þessi hópur er langt kominn með vinnu sína en sigldi svo upp á sker undir lokin þar sem steytti á að það var enginn fulltrúi frá fjármálaráðuneytinu í hópnum svo erfitt reyndist að ræða skattamálin til hlýtar. Málin standa því sennilega óbreytt fram á haustið þegar aftur verður hægt að setjast yfir málin.

Þegar starfshóparnir um verðlagsmál og aðlögunarsamninga, minni bú o.fl. hafa skilað tillögum sínum skulu fulltrúar bænda og ríkis gera með sér samkomulag sem verður hluti af breytingum á samningnum um starfsskilyrði nautgriparæktar, en ég minni á að þær breytingar eru háðar samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Úr þessu má gera ráð fyrir að sú atkvæðagreiðsla muni eiga sér stað í lok þessa árs.

Hámarksverð á kvótamarkaði

Einn kvótamarkaður hefur átt sér stað eftir að samningurinn okkar var endurskoðaður.  Á honum var hámarksverð sett tvöfalt afurðastöðvarverð í samræmi við heimild ráðherra til að gera slíkt að undangenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga. Eins og við var að búast var eftirspurnin margföld á við framboðið. Helst má rekja það til þess að ekki náðist, eins og að var stefnt, að setja hámarksverð sem gilda myndi lengra fram í tímann en á einum markaði. Niðurstaðan varð því að allmargir sem hugðust selja sitt greiðslumark héldu að sér höndum í von um að næsti markaður gæfi hærra verð og því er orðin töf á að eðlileg virkni náist á markaðinn.

Til stendur að halda fund í framkvæmdanefnd búvörusamninga næstu daga til að ákveða hvernig skuli farið með næsta markað en það er orðið mjög aðkallandi fyrir greinina á fá þessi mál á hreint svo menn viti að hverju þeir ganga til lengri tíma. Stjórn LK hefur lagt þunga áherslu á að ná fram stöðugleika í þessum málum, enda ótækt að taka ákvörðun fyrir hvern markað fyrir sig með tilheyrandi óvissu fyrir bændur og greinina í heild.

Verðlækkun á umframmjólk

Síðastliðinn laugardag tilkynnti Auðhumla að ákveðið hefði verið að lækka verð á umframmjólk úr 29 kr/ltr. niður í 20 kr/ltr. frá og með 1. ágúst næstkomandi. Ástæða verðlækkunarinnar er þungar aðstæður á erlendum mörkuðum um þessar mundir og lág verð en langan tíma tekur að afsetja vörur á erlendan markað auk þess sem COVID-19 hefur mikil áhrif. Verðlækkunin er þungt högg fyrir þá framleiðendur sem hafa stækkað ört en ekki enn náð að tryggja sér kvóta fyrir framleiðslunni. Það er því enn mikilvægara nú en áður fyrir okkur mjólkurframleiðendur að fá virkni í greiðslumarksmarkaðinn sem fyrst.

Það er mikilvægt að við fylkjum okkur á bakvið kerfið sem við erum í sameiningu búin að ákveða að við ætlum að notast við.

Ritað á Hranastöðum 3. júlí

Arnar Árnason