Beint í efni

EDF: danskir kúabændur afkastamestir

18.11.2017

Nú liggur fyrir uppgjör EDF, Evrópusamtaka kúabænda, en í þessu uppgjöri var litið til afkastanna á kúabúum í Evrópu. Þar kemur í ljós að líkt og fyrri ár þá eru danskir kúabændur afkastamestir þegar horft er til þess magns mjólkur hver vinnustund á búinu skilar. Að jafnaði skilaði hver vinnustund á dönsku kúabúi 392 kg orkuleiðréttrar mjólkur og er þá allt talið sem tilheyrir mjólkurframleiðslunni.

Þessi niðurstaða kemur etv. ekki sérlega mikið á óvart enda dönsk kúabú með afurðahæstu kýr í Evrópu og raunar fá lönd með hærri meðalnyt í heiminum, þá er bústærðin í Danmörku einnig sú mesta í Evrópu og er nú rétt undir 200 árskúm auk þess sem alþekkt er að röskleiki einkennir danska kúabændur. Það sem kemur þó á óvart er hve mikil afkastaaukning hverrar vinnustundar hefur orðið frá uppgjörinu árið 2014 en þá skilaði hver vinnustund 333 kílóum orkuleiðréttrar mjólkur. Vinnuframlag á hverja árskú í Danmörku, samkvæmt uppgjöri EDF, er nú 27 klukkustundir.

Þess má geta til samanburðar að hver vinnustund á sænskum kúabúum skilar að jafnaði 243 kílóum orkuleiðréttrar mjólkur og í Þýskalandi er þetta magn 226 kg.

Sé horft til hagkvæmni framleiðslunnar eru dönsku búin einnig að standa sig lang best, þ.e. með lægstan fóðurkostnað á hvert framleitt kíló mjólkur en þegar horft er til heildartekna búanna, þ.e. að teknu tilliti til opinberra styrkja og fjármagnskostnaðar, snýst dæmið svolítið við þar sem styrkir til danskra kúabúa eru hverfandi og mörg bú þar skuldsett. Ef horft er til styrkjanna fengu danskir kúabændur að jafnaði 3,4 evrusent í opinberan styrk á hvert kíló orkuleiðréttrar mjólkur árið 2016 (4,1 íkr/kg) en meðalbúið í samanburði EDF fékk hins vegar 6,4 evrusent (7,8 íkr/kg). Sum lönd í samanburðinum fengu mun meira og t.d. sænsku kúabúin voru að fá 9,8 evrusent að jafnaði (11,9 íkr/kg) sem skýrist m.a. af meiri stuðningi þar í landi á landnot og nautakjötsframleiðslu. Þegar allur framleiðslukostnaður er tekinn inn í uppgjörið kemur í ljós að írsku kúabúin eru að framleiða ódýrustu mjólkina og nægði þeim að fá afurðastöðvaverð upp á 26 evrusent á hvert kíló orkuleiðréttar mjólkur (31,6 íkr/kg) til þess að standa á sléttu árið 2016.

Þess má geta að uppgjör EDF byggir á innsendum upplýsingum aðildarfélaga landanna og í uppgjörinu eru ekki öll bú landanna heldur valin bú sem eru með ár eftir ár/SS.