Duane Hill afhenti mjólkurflösku
27.05.2013
Hin þekkta aksturskeppni Indianapolis 500 var haldin í 97. skipti í gær og líkt og undanfarna áratugi fékk sigurvegarinn mjólk að launum til þess að gæða sér á. Þessi skemmtilega hefð er í hávegum höfð og þykir mikill heiður meðal kúabænda að fá það hlutverk að afhenda mjólkurflöskuna sem drukkið er af. Í gær var það hann Duane Hill sem afhenti flöskuna mikilvægu en Ken Hoeing var honum til aðstoðar.
Reglulega er skipt um kúabændur í þessu hlutverki og því standa alltaf tveir bændur á verðlaunapallinum, einn sem er þá til aðstoðar og hinn afhendir. Næsta ár tekur svo við sá sem áður hefur verði til aðstoðar og svo koll af kolli. Það eru samtök kúabænda í Indiana sem velja fulltrúa sem sjá um þetta mikilvæga markaðsstarf fyrir búgreinina. Til merkis um hve mikill heiður það er að fá að afhenda mjólkurflöskuna var haft eftir Duane Hill um viðburðinn: ”Aldrei í lífi mínu, allt frá því að ég var smástrákur að mjólka kýr, hefur mér dottið í hug að mér myndi nokkurntímann hlotnast sá heiður að afhenda mjólk til sigurvegara Indianapolis 500”/SS.