Beint í efni

Drykkjarjógúrt sem er gott fyrir húðina

03.04.2017

Í Japan hefur þróunarsvið afurðafélagsins Morinaga og deild innan heilbrigðisháskólans Wakayama þróað einkar áhugaverða mjólkurafurð, en það er drykkjarjógúrt sem inniheldur ekstrakt úr aloa vera plöntunni, en sú planta er alþekkt fyrir góða eiginleika þegar kemur að húð s.s. við bruna. Þetta jógúrt er sagt hafa afar góð áhrif á húð og í tilraun, sem stóð yfir í 12 vikur, kom fram tölfræðilega marktækur munur á teygjanleika, magni kollagens, rakastigi og fleiri þáttum á húð hjá þeim konum sem tóku þátt í rannsókninni en ólag á framangreindum þáttum getur valdið hrukkum.

Rannsóknin var gerð sem „blint próf“, þ.e. sumar fengu jógúrt án aloa vera og aðrar konur jógúrt með aloa vera og voru þær óaðvitandi um það hvaða jógúrt þær átu, og tóku 64 konur þátt í tilrauninni og voru þær á aldursbilinu 30-59 ára. Þar sem um opinbera rannsókn var að ræða hefur komið fram að alls eru notuð 40 mikrógrömm af ekstrakti úr aloa vera geli í 100 grömm af jógúrti svo það virðist ekki þurfa mikið til að fá fram kosti þess blanda aloa vera í drykkjarjógúrt/SS