Beint í efni

Dr. Margrét Guðnadóttir gefur álit vegna umsagnar BÍ um matvælafrumvarp

08.09.2008

Við vinnslu Bændasamtaka Íslands á umsögn um matvælafrumvarpið var leitað álits dr. Margrétar Guðnadóttur sem er fyrrverandi prófessor í sýklafræði. Hún hefur hlotið mikla viðurkenningu fyrir vísindastörf sín og var hún því beðin um að meta frumvarpið út frá sinni þekkingu með tilliti til hugsanlegra áhrifa frumvarpsins á heilbrigði búfjár og manna hér á landi.  Var hún sérstaklega spurð um hvort hugsanlegt væri að frjáls innflutningur (þ.e. innflutningur sem leiðir af matvælalöggjöf ESB) á kjöti og öðrum dýraafurðum (t.d. mjólkurdufti) frá ESB til Íslands geti haft varanleg og óhagstæð langtímaáhrif annars vegar á heilbrigðisstöðu íslenskra búfjárstofna og hins vegar á lýðheilsu manna hér á landi (sbr. 13. gr. EES samningsins um ástæður sem réttlætast af vernd lífs og heilsu manna eða dýra).

 

Hún var einnig beðin um að meta hvort uppruni vöru skipti máli (þ.e. frá hvaða svæði innan ESB hún kemur) og hvort vinnslustig við innflutning (t.d. frosið eða ófrosið kjöt) skipti máli.

 

Margrét Guðnadóttir skilaði sínu áliti þann 13. ágúst og er það viðamikil greining á stöðu mála.
Niðurstaða Margrétar er m.a. að Alþingi eigi að fella frumvarpið og taka þurfi upp nýjar samningaviðræður við EES .  Hún bendir á tilvist mæði-, riðu- og garnaveiki í löndum ESB og hvernig við ýmist hér á landi höfum útrýmt eða takmarkað mjög þessa sjúkdóma. Hún fjallar um árangur hérlendis gegn salmonellusýkingum og tiltekur hún sérstaklega að frysting geti dregið úr hættu á salmonellu.  Margrét varar við afsali á réttindum til þess að þjóðin ráði sjálf sínum sóttvarnarmálum, hún rekur sögu vandræðagangs innan ESB vegna kúariðunnar.  Skýrt er tekið fram að innflutningur á ófrosnu hráu kjöti sé mjög varasamur.  Bent er á að sjúkdómar eru farnir að haga sér öðruvísi en áður vegna hlýnunar jarðar.

 

Hún segir m.a. orðrétt:

„Nú er það nýjast, að hreinir hitabeltissjúkdómar eru farnir að færa sig úr því belti norður og suður vegna hlýnunar jarðar og þeirra breytinga á dýralífi og umhverfi, sem hún veldur.  Hvað verður næst?  Hvernig á að gera áhættumat þar, sem lifandi náttúran ræður ein ferðinni?  Verður það mat afgreitt með einu pennastriki – engin hætta! – eða er rétt og skylt að laga hættumatið eftir aðstæðum hverju sinni?“ 

 

Bent er á nauðsynlegar aðgerðir hérlendis til þess að sporna gegn útbreiðslu sjúkdóma þ.m.t. að koma á fót „alvöru áhætturannsóknadeild fyrir illvíga nýja dýrasjúkdóma“.  Að lokum, hvetur hún til þess að góðu heilbrigðisástandi sem ekki var fyrirhafnarlaust að koma upp verði ekki glutrað niður.

 

Álit dr. Margrétar í heild sinni má finna hér. Í Bændablaðinu sem kemur út á morgun er einnig greint frá áliti Lagastofnunar Háskóla Íslands um frumvarpið.