Dönsk kornuppskera 3% minni en í meðalári – 16% meiri í Evrópu
21.08.2008
Kornuppskeran í Danmörku verður í ár um 8,7 milljónir tonna, eða 3% undir meðaltali síðustu 5 ára. Í Evrópu verður hún á hinn bóginn 16% yfir meðaltali. Þrátt fyrir að uppskera skuli vera undir meðallagi, teljast danskir bændur hafa sloppið vel, þar sem útlit var á tímabili fyrir alvarlegan uppskerubrest eftir mjög mikla þurrka snemmsumars.
Síðustu 5 ár hefur uppskeran í Danaveldi verið á bilinu 8,2 til 9,3 milljónir tonna, að jafnaði 8,7 milljónir. Uppskera eftir tegundum er mjög misjöfn. Mestum vonbrigðum hefur vorbyggið valdið, uppskera þess pr. hektara er 17% undir meðaltali. Óvenju miklu var sáð af því í vor, þar sem leyft var í fyrravetur að sá í land sem bændur hafa áður verið skikkaðir til að legga í tröð (d. brakmarker).
Hveitiuppskeran nær næstum því að vega upp minni bygguppskeru, en spár sem gerðar voru í síðustu viku þegar búið var að þreskja 2/3 af hveitiökrunum benda til að uppskera þess í ár verði 8% yfir meðaltali. Fyrir aðeins tveimur vikum, þegar búið var að skera um þriðjung, bentu spár til að hveitiuppskera af flatareiningu væri í meðallagi.
Samanlagt eru hveiti og bygg 80% með kornuppskerunnar, af 1,5 milljónum hektara.
Uppskera eftir landshlutum er best í austurhluta landsins, en lökust á Suður-Jótlandi. Þar er uppskera vorbyggs rúmum þriðjungi minni af hektaranum og hveitiuppskeran 10% minna af hverri flatareiningu.
Heimild: www.landbrugsavisen.dk