Beint í efni

Dönsk básafjós fá undanþágu!

05.04.2016

Árið 2007 tóku gildi lög í Danmörku um að árið 2022, þ.e. að 15 árum liðnum frá gildistöku laganna, þá myndi það heyra sögunni til að hafa kýr bundnar á bása. Þá, þ.e. árið 2007, var talið að þessi fjós myndu úreldast hratt og því yrðu það í raun ekki mörg fjós sem þyrfti að loka þegar allt kæmi til alls.

 

Nýverið var gert uppgjör hjá ráðgjafafyrirtækinu SEGES sem hins vegar sýnir að enn þann dag í dag eru um 600 básafjós í notkun í landinu og að flest þessara fjósa séu afar vel rekin. T.d. er skuldsetning þeirra að jafnaði mun minni en annarra fjósgerða: 45% skuldsetningu en til samanburðar er hún 76% hjá þeim sem eru með mjaltabása og heil 84% hjá þeim sem eru með mjaltaþjóna.

 

Samkvæmt útreikningum SEGES er útlit fyrir að árið 2022 verði enn eftir amk. um 300 básafjós í Danmörku en þessari fjósgerð hefur fækkað jafnt og þétt undanfarin ár. Vegna hins mikla fjölda var lagt að landbúnaðarráðherra landsins, Espen Lunde Larsen, að framlengja frestinn fyrir þessa fjósgerð og hefur hann nú ákveðið að framlengja úreldingartímann til ársins 2027. Það er þó háð því að þeir bændur sem eiga básafjós eftir 2022 hleypi kúm sínum á beit á sumrin, en það er ekki almenn krafa í landinu/SS.