Beint í efni

Dómur hjá WTO gæti gjörbreytt milliríkjaviðskiptum með landbúnaðarvörur

25.08.2003

Samkvæmt úrskurði frá WTO hefur Kanada styrkt útfluttar mjólkurvörur ólöglega síðustu 7-8 ár og með því farið á bak við samkomulag landanna um milliríkjaviðskipti. Málið snýst um útreikninga á útflutningsbótum og í grunninn hvort reikna megi með lægra verði á vörum til útflutnings en á sölu innan viðkomandi lands.

WTO kemst að þeirri niðurstöðu að ef um ríkisstyrki til útflutnings sé að ræða, þá megi viðkomandi land ekki nota aðra verðútreikninga á mjólkurvörunum en notaðar eru á innanlandsmarkaði. Mörg lönd sem styðja við útflutning á landbúnaðarvörum hafa hingað til reiknað grunnverð varanna án þess að taka tillit til fasts kostnaðar, launaliðar og afskrifta. Með þessu móti hefur verið hægt að ýta vörunum úr landi á mun lægra verði en raunverð er.

 

Niðurstaðan gæti breytt verulega milliríkjaviðskiptum með landbúnaðarafurðir og gæti m.a. haft veruleg áhrif á einmitt Bandaríkin og Nýja Sjáland sem kærðu málið!

 

Eins og kunnugt er, þá voru útflutningsbætur lagðar af hérlendis fyrir rúmum 10 árum, en leiða má að því líkum að hingað til lands berist fjölmargar landbúnaðarafurðir sem eru niðurgreiddar af öðrum löndum. Mögulegt er að þessar vörur muni hækka á komandi misserum eða árum vegna dóms WTO.