Dolcorsllwyn Fabio setti nýtt heimsmet!
27.02.2012
Þann 18. febrúar sl. var sett nýtt heimsmet í nautgriparækt sem verður væntanlega lengi í minnum haft. Þá var kynbótanautið Dolcorsllwyn Fabio, sem er af Limousin kyni, seldur á 127 þúsund pund eða 25,1 milljón íkr. á uppboðsmarkaði í Borderway Mart í Carlisle.
Naut þetta er eins og sjá má hið glæsilegasta og gríðarlegt að vexti þó er það einungis um 18 mánaða gamalt. Nautið er fætt í september 2010 hjá Glyn Vaughan á búi hans Dolcorsllwyn rétt við þorpið Machynlleth í Powys sem er u.þ.b. 150 km vestur af Birmingham.
Dolcorsllwyn Fabio er undan hinu stórættaða Fieldson Alfy sem á marga þekkta afkomendur. Þó svo að verðið sé afar hátt þá telja sérfræðingar að hinn nýji eigandi, Alan jenkinson frá Penrith, nái skjótt inn verðinu í gegnum kynbótastarf enda er Fabio með einstaka vaxtareiginleika.
Á uppboðsmarkaðinum voru bjóðendur greinilega afar jákvæðir enda voru í heildina seld 131 naut og var meðalverð þeirra viðskipta 8.203 pund eða um 1,6 milljónir króna pr. naut. Þegar þetta heimsins hæsta verð fékkst náðist það á myndband og er hægt að skoða það á Youtube. Full ástæða er til þess að hvetja til þess að horfa á myndbandið og ekki síst að fylgjast með viðbrögðum fólks í salnum þegar niðurstöður uppboðsins liggja fyrir. Smelltu hér til þess að skoða myndbandið: http://www.youtube.com/watch?v=l8mwhbkMCWY/SS