Beint í efni

DMK stækkar og stækkar

04.09.2012

Stærsta afurðafélagið í Þýskalandi, Deutsches Milchkontor eða DMK, slær ekki slöku við í samkeppninni við aðrar afurðastöðvar. Rétt eins og allsstaðar er að gerast virðist leiðin fram á við byggjast á sameiningum og uppkaupum. Nú hefur DMK tilkynnt um kaup sín á Sunval, en fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á barnamat og er með verksmiðju í nágrenni við Karlsruhe.

 

Svo virðist sem gengi fyrirtækja á sviði framleiðslu á barnamat sé afar gott og markaðurinn nokkuð tryggur. Þá hefur áhugi neytenda á lífrænum barnamat aukist verulega en Sunval er einmitt eingöngu í lífrænni framleiðslu. Í kjölfar uppkaupanna ræður DMK yfir afar stórum hluta af markaðinum með barnamat, enda er hið þekkta vörumerki í barnamat, Humana, einnig í eigu DMK. Eftir uppkaupin á Sunval er áætluð heildarvelta DMK um 716 milljarðar íslenskra króna/SS.