DeLaval dregur úr framleiðslunni
20.10.2015
Erfitt ástand í mjólkurframleiðslunni í heiminum, vegna afar lágs afurðastöðvaverðs víða, bitnar ekki einungis á kúabændum heldur einnig að sjálfsögðu á þeim ótal fyrirtækjum sem þjónusta kúabændur. Samdráttur í sölu mjaltatækja hefur nú leitt til þess að DeLaval hefur dregið úr framleiðslu sinni í Tumba í Svíþjóð.
Í verksmiðjunni í Tumba fer fram bæði framleiðsla á mjaltaþjónum en einnig mjaltatækjum fyrir hefðbundnar mjaltir og vinna þar 130 manns. Frá byrjun þessa mánaðar hefur verksmiðjan nú verið lokuð einn dag í viku og er því einungis unnið þar fjóra daga vikunnar. Fyrsta áætlun fyrirtækisins er að verksmiðjan verði rekin svona áfram næstu 5-6 mánuðina en að þeim tíma liðinum verður framleiðslan endurskoðuð á ný.
DeLaval hefur ekki áform um að loka öðrum framleiðslulínum fyrirtækisins, en framleiðsla á búnaði DeLaval fer fram víða um heim. Þó er Tumba eini staðurinn þar sem mjaltaþjónar eru framleiddir og má af þessum fregnum ráða að mest hafi dregið úr eftirspurn eftir þeirri mjaltatækni/SS.