Beint í efni

Danskur kjötinnflytjandi blekkti neytendur

20.10.2010

Fyrir helgi fór lögregla ásamt matvælaeftirlitinu í Danmörku inn í þarlenda kjötvinnslufyrirtækið Vakka Köds vegna grunsemda um að fyrirtækið merkti ekki rétt umbúðir nautakjöts í verslunum. Vakka er afar stórt kjötvinnslufyrirtæki og selur vörur sínar í allar helstu verslunarkeðjur landsins. Um var að ræða innflutt hollenskt nautakjöt sem virtist ekki skila sér ekki út úr fyrirtækinu. Í ljós kom að grunsemdirnar voru á rökum reistar, en kjötið

var selt í dönskum pakkningum sem danskt kjöt og neytendur því stórlega blekktir.

 

Málið þykir grafalvarlegt og hafa nú talsmenn allra helstu verslunarkeðja landsins komið fram opinberlega og hafnað öllum frekari viðskiptum við fyrirtækið á meðan lögreglurannsóknin fer fram. Þá hefur stærsta kjötiðnaðarfyrirtæki Danmerkur, Danish Crown, losað sig við Vakka sem undirverktaka. Við blasir að fyrirtækið er í alvarlegri stöðu, auk þess sem lögreglukærur bíða forsvarsmanna fyrirtækisins fyrir svindlið.

 

Að gefnu tilefni skal tekið fram að í ágúst sl. var flutt inn til Íslands nautakjöt frá Danmörku (900 kg af lundum), Hollandi (4,7 tonn af lundum), Þýskalandi (8,3 tonn af lundum) og Litháen (2 tonn af lærisvöðum). naut.is er ekki kunnugt um hvar þetta innflutta kjöt er selt né hvort upprunamerking þess sé þannig að neytendur viti hvers lenskt kjötið er sem þeir kaupa. Slík upprunamerking er skylda í Danmörku og skal upprunamerkingin vera skýr og greinargóð, svo neytendur geti tekið upplýsta ákvörðum um kjötkaup á hverjum tíma.