Beint í efni

Danskir lífeyrissjóðir í mjólkurframleiðslu?

11.08.2012

Fimm danskir lífeyrissjóðir, þar af AP Pension sem er einn af stærstu og best reknu lífeyrissjóðum landsins, eru nú að skoða alvarlega fjárfestingakosti í þarlendum landbúnaði. Samkvæmt frétt í Fyens Stiftstidende hafa forsvarmenn þessara lífeyrissjóða mikla trú á framtíðarmöguleikum danska landbúnaðarins og því séu sjóðirnir tilbúnir til þess að skoða alvarlega fjárfestingu á landi með leigu til bænda í huga.

 

Til þess að þetta sé mögulegt þurfa sjóðirnir að ráða yfir mörgum bújörðum, eins og Hans Dam, upplýsingastjóri AP Pension sagði í viðtali við blaðið: ”Okkur myndi aldrei detta í hug að fjárfesta í bara einni jörð, það væri allt of áhættusamt. Við þurfum bæði magn og fjölbreytni svo fjárfestingarkosturinn sé ekki áhættusamur fyrir okkar umbjóðendur”. Samkvæmt áætlun sjóðanna, sem kynnt verður 1. september nk., er hugmyndin að sjóðirnir eigi land og byggingar en leigi svo til bænda sem sjái um reksturinn rétt eins og þegar fjárfestingasjóðir eiga iðnaðar- eða verslunarhúsnæði sem þeir leigja til rekstraraðila. Með þessu móti fái sjóðirnir fastar tekjur af langtímabindingu á fjármagni, nokkuð sem hentar einkar vel fyrir lífeyrissjóði. Auk þess þarf alltaf meiri og meiri matvæli og því þykja fjárfestingar í landi ekki svo áhættusamar.

 

Margir bændur í Danmörku hafa tekið þessum hugmyndum vel enda staða sumra grafalvarleg. Formaður bænda á Fjóni, Niels Rasmussen, telur til að mynda að þetta sé raunhæf og góð lausn á fjárhagsvanda búgreinanna. Í stað þess að bændur fjárfesti eigin fé í landi og föstu fjármagni á bújörðum þeirra, þá taki þeir inn auknar tekjur jafnt og þétt beint til sín og skili svo af sér leigujörðinni við starfslok eða kynslóðaskipti/SS.