Beint í efni

Danskir kúabændur vilja að jafnræðis sé gætt

03.03.2010

Ársfundur Dansk kvæg var haldinn í Herning 1. og 2. mars sl. Að vanda var góð mæting á fundinn en hátt í 2.000 manns sóttu samkomuna. Fundurinn hófst með því að formaður samtakanna, Peder Philipp og framkvæmdastjórinn, Gitte Grønbæk gáfu yfirlit yfir stöðu greinarinnar og rekstrarhorfur í næstu framtíð.

2009 var með eindæmum erfitt rekstrarár fyrir danska kúabændur og voru búin að jafnaði rekin með 700.000 dkk tapi. Horfur fyrir þetta ár og það næsta eru heldur betri. Þó berast fréttir af því að erfitt sé að láta fjárhagsáætlanir fyrir þetta ár ganga upp. Sú staðreynd að vextir skuli vera í sögulegu lágmarki hjálpar mjög mörgum til að halda sjó í rekstrinum en þýðir jafnframt, að greinin er afar viðkvæm fyrir breytingum á vaxtastigi. Þannig kom fram í máli framkvæmdastjóra samtakanna að til að mæta vaxtahækkun um eitt prósentustig, þarf mjólkurverð að hækka um 10 danska aura til að mæta henni.

 

Í máli formannsins kom skýrt fram að bændur væru að sjálfsögðu reiðubúnir að greiða skuldir sínar, þeir gerðu jafnframt kröfu um að aðrir bæru sinn hluta af ábyrgðinni. Greinin væri ekki tilbúin að greiða hærri vexti eða þjónustgjöld en aðrar greinar. Einnig væri þess krafist að nautgriparæktinni væri sköpuð sömu rekstarskilyrði og í nálægum löndum, en t.a.m. í Þýskalandi hefði verið gripið til ýmissa aðgerða til að létta kúabændum róðurinn. Svo væri alls ekki í Danmörku en grundvallaratriðið ætti að vera á innri markaði ESB að kúabændum innan hans væri sköpuð svipuð skilyrði. Af orðum Peder Philipp að dæma er ljóst að svo er alls ekki.