Danskir kúabændur með 127 kýr að jafnaði
22.03.2011
Nýverið voru teknar saman hjá Nautgriparæktardeild Þekkingarseturs landbúnaðarins í Danmörku (Videncentret for Landbrug, Kvæg) upplýsingar um skiptingu á fjölda kúa milli danskra kúabúa og ekki þarf að koma nokkrum á óvart að búin í Danmörku eru að jafnaði töluvert stærri en hér á Íslandi. Alls voru um síðustu áramót 4.475 bú skráð í mjólkurframleiðslu með 568.583 mjólkurkýr eða 127,1 mjólkurkú að jafnaði.
Miðað við upplýsingar úr hinu danska skýrsluhaldi er ekki ólíklegt að meðalframleiðsla danskra búa sé nú um 1,2 milljónir lítra mjólkur. Athyglisvert er hinsvegar að sjá hve mörg kúabú eru þrátt fyrir allt enn með tiltölulega fáar mjólkurkýr en 307 bú eru með færri en 9 skráðar mjólkurkýr. Stærsti flokkur búa liggur þó á bilinu 100-199 kýr eða 1.802 bú og í þessum flokki bú eru einnig flestar kýr eða 258 þúsund. 96 bú eru með fleiri en 400 mjólkurkýr og er meðalfjöldinn á þessum búum 498 kýr. Nánar má sjá þessar áhugaverðu upplýsingar í töflunni hér fyrir neðan. /SS
Flokkur kúa | Fjöldi búa | Fjöldi kúa | |
1-2 | 143 | 191 | |
3-9 | 164 | 828 | |
10-19 | 135 | 1.933 | |
20-29 | 164 | 4.166 | |
30-49 | 396 | 15.721 | |
50-99 | 912 | 65.696 | |
100-199 | 1.802 | 258.383 | |
200-299 | 523 | 125.522 | |
300-399 | 140 | 47.426 | |
>400 | 96 | 48.817 |