Danskir bændur snuðaðir í áburðarviðskiptum?
22.03.2016
Bóndi einn í Danmörku tók nýlega upp á því að vigta alla áburðarsekkina sem honum bárust nýverið frá fyrirtækinu Danish Agro en hver stórsekkur átti að innihalda 650 kíló. Í ljós kom hins vegar að stundum vantaði aðeins upp á vigtina og hélt hann bara að vigtin hans væri ekki rétt og fékk tvo kollega sína til þess að vigta sína stórsekki. Þeirra niðurstöður voru í sömu átt og var þá haft samband við ráðgjafamiðstöð bændanna, Sydvestjyk Landboforening.
Þar tóku menn málið í sínar hendur og gerðu sér lítið fyrir og sendu 90 stórsekki á opinbera vigtunarstöð með viðurkenndri vigt. Alls voru 10 stórsekkir vigtaðir í einu og átti niðurstaðan fyrir þessa 10 stórsekki að vera 6.520 kíló að teknu tilliti til þungans á tómum stórsekkjum. Alls voru því framkvæmdar níu vigtanir og kom í ljós að það vantaði áburði í öllum tilvikum, frá 20-100 kíló og í það heila vantaði 420 kíló af áburði úr þessum 90 stórsekkjum eða 0,72% og munar um minna í hinni miklu samkeppni á milli áburðarsöluaðila.
Auk framangreindar hópvigtunar voru 15 stórsekkir vigtaðir sérstaklega og þeir valdir úr af handahófi. Enginn þeirra náði því að vera 652 kíló eins og ætla mætti en samkvæmt opinberum dönskum stöðlum má heildarvigtin sveiflast frá 651-653 kílóum. Fyrirtækið Danish Agro hefur svarið af sér að verið sé að svindla á bændum og að þeirra vigtunarbúnaður sé réttur og yfirfarinn en bændurnir hafa á móti bent á að sé vigtunarbúnaðurinn réttur þá sé ekki rétt með hann farið. Danish Agro hefur nú boðið bændunum að skipta um áburðarsekkina og afhenda bændunum nýja sekki/SS.