Beint í efni

Danskar kýr endast skemur

10.07.2003

Nýleg dönsk rannsókn á endingu kúa sýnir að fjöldi kúa sem falla úr framleiðslu fyrr en ætlað er, hefur tvöfaldast á síðustu 10 árum í Danmörku. Þannig hefur tíðnin hækkað úr 1,1% fyrstu 100 dagana eftir burð árið 1990, upp í 2,7% árið 2001 (fyrir SDM-kynið). Sambærileg þróun hefur verið meðal annarra danskra kúakynja.

Þá kemur jafnframt fram í rannsókninni að mikill munur sé á milli búa hvað þetta snertir og kemur m.a. fram að 21% búanna misstu engar kýr fyrr en ætlað var árið 2001. Á móti kemur einnig að á 10% búanna drepast 7-8% kúnna árlega fyrr en ætlað er.

 

Ýmsir þættir virðast hafa þarna áhrif og er hlutfallið t.d. hærra á búum með háa frumutölu en lægri á búum með háa nyt. Bú sem beita kúm hafa lægri tíðni en bú þar sem kýr eru fóðraðar inni allt árið.