Danska fjármálaeftirlitið með landbúnaðinn undir smásjá
12.05.2011
Í nýútkominni skýrslu danska fjármálaeftirlitsins um þróun fjármálamarkaðar þar í landi 2010, er talsvert fjallað um fjárhagsstöðu bænda. Á síðustu 7 árum hafa skuldir bænda við danska bankakerfið tvöfaldast, úr 50 milljörðum DKK í ríflega 100 milljarða DKK (2.000 milljarða ISK). Nú þegar hafa danskar fjármálastofnanir afskrifað hluta þessara útlána, 4% árið 2009 og 6% árið 2010. Það er svipað hlutfall og í verslun og iðnaði, en miklu lægra hlutfall en t.d. hjá fasteignafélögum, þar sem það er 12% 2009 og 19% 2010. Landbúnaðurinn vegur misþungt í lánasöfnum bankanna. Hlutfallslegt vægi hans er talsvert mikið hjá minni fjármálafyrirtækjum út um landið, sem gerir þau viðkvæmari fyrir neikvæðri þróun í afkomu bænda.
Afkoma landbúnaðar í Danmörku undanfarin ár hefur einkennst af miklum sveiflum í afurðaverði, verð á korni hefur verið sérstaklega sveiflukennt. Afkoma kúabænda hefur farið batnandi vegna hækkandi mjólkurverðs á síðasta ári og er talið að sú þróun haldi áfram árið 2011. Afkoma svínaræktarinnar skánaði heldur 2010 afkomuhorfur fyrir þetta ár eru lakari.
Sú staðreynd að vextir voru í sögulegu lágmarki árin 2009 og 2010, hefur í raun haldið greininni á floti. Væntingar um hækkandi vexti eru því alvarlegasta ógnin sem greinin stendur frammi fyrir og er sú ógn mjög alvarleg, bæði fyrir greinina sjálfa og þær fjármálastofnanir sem hafa lánað landbúnaðinum háar fjárhæðir. Á árunum 2000-2008 hækkaði landverð um 160%, en hefur lækkað um tæplega fjórðung síðan þá og er nú á svipuðu róli og það var árið 2005. Fjármálaeftirlitið metur stöðu þeirra bænda sem keypt hafa land í umtalsverðum mæli eftir þann tíma, mjög erfiða. Þróun landverðs hefur því haft mjög skýr einkenni bólu, sem nú virðist sprungin.
Jafnframt hefur talsverður hluti bænda aukið skuldir sínar og þar með þurrkað út eigið fé, með því að breyta lánum yfir í svissneska franka, hvers gengi hækkaði umtalsvert árið 2010. Danska fjármálaeftirlitið gerir því ráð fyrir að áframhald verði á afskriftum lána til þarlendra bænda árið 2011.
Skýrsla danska fjármálaeftirlitsins um fjármálamarkaðinn 2010