Beint í efni

Danone stækkar enn, nú í Svíþjóð

04.08.2010

Mjólkurrisinn Danone heldur áfram að stækka og í liðinni viku keypti fyrirtækið meirihluta hlutfjár í ProViva AB, dótturfélagi sænsku afurðastöðvarinnar Skånemejerier. Fyrirtækið ProViva hefur sérhæft sig í framleiðslu ávaxta og jógúrtdrykkja og er með mjög sterka stöðu bæði á Norðurlöndunum en einnig í mörgum öðrum löndum. Fyrirtækið hefur byggt þróun sinna vara á sænsku hugviti og sænskum rannsóknum og árið 2009 nam velta þess 364 milljónum sænskra króna, eða um

6 milljörðum íslenskra króna.
 

Skånemejerier, sem er í eigu um 600 kúabænda í suðurhluta Svíþjóðar, telur samninginn við Danone afar jákvæðan og að hann muni styrkja stöðu afurðastöðvarinnar þar sem nú hafi Skånemejerier aðgengi að mun stærra dreifingarkerfi með auknu samstarfi við Danone. Skånemejerier er í dag með um 600 starfsmenn, tók á móti 353 milljónum lítra mjólkur árið 2009 og velta þess það ár var 2,9 milljarðar sænskra króna eða um 48 milljarðar íslenskra króna.
 

Eins og áður hefur verið greint frá hér á naut.is þá er Danone næst stærsta mjólkurafurðafyrirtæki í heimi, á eftir Nestlé.