Danone spáir samdrætti næstu árin
28.10.2015
Franska stórfyrirtækið Danone, sem er í einkaeigu og er eitt það stærsta í heimi í mjólkurvinnslu, áætlar að fyrirtækið muni kaupa minna magn af mjólk á komandi árum en hingað til. Skýringin sem fyrirtækið gefur er að vegna samdráttar í sölu þurfi Danone einfaldlega ekki eins mikla mjólk og undanfarið og gerir spá fyrirtækisins ráð fyrir að draga saman innvigtun mjólkur í Frakklandi um 2% á næstu fjórum árum.
Þetta eru stórtíðindi enda hafa öll hin stærstu fyrirtækin og afurðafélögin í heiminum þá stefnu að auka innvigtun sína á komandi árum. Þess ber að geta að Danone hefur einungis gefið út þessa stefnu sína fyrir rekstur fyrirtækisins á heimamarkaðinum Frakklandi, en vera má að skýringin felist einmitt í erfiðri stöðu á þeim markaði. Í dag er Danone með sterka stöðu í landinu og kaupir mjólk frá 2.400 kúabúum og nemur árleg innvigtun 1 milljarði lítra eða um 415 þúsund lítrum að jafnaði frá hverju búi/SS.