Danone eflir starfsemina í Nýja-Sjálandi
08.07.2014
Franska afurðafélagið Danone er heldur betur að hrista upp í valdajafnvæginu á heimsmarkaði mjólkurvara en nýverið festi fyrirtækið kaup á tveimur afurðastöðvum í sjálfu heimalandi Fonterra, Nýja-Sjálandi! Reyndar átti Danone fyrir eina afurðastöð í landinu, í Mount Wellington í Auckland, en sú stöð er rekin í nafni Nutricia sem er dótturfélag Danone.
Að þessu sinni keypti franska fyrirtækið fyrirtækin Sutton Group og Gardians. Sutton Group framleiðir mjólkurduft fyrir barnamjólk en Gardians starfrækir mjólkurþurrkunarstöð í Balclutha í Otago. Þar sem Danone er eitt af stærstu fyrirtækjum heims á þessu sviði, þurfa uppkaupin að fara fyrir samkeppniseftirlitið í Nýja-Sjálandi en þess er þó vænst að yfirtakan verði heimil/SS.