Danone á miklu skriði
22.08.2011
Afurðavinnslurisinn Danone hefur birt rekstraruppgjör fyrstu sex mánuða ársins 2011 og sýnir það nærri 6% aukinni sölu ferskra mjólkurvara og 9,6% aukinni sölu á ungbarnafæði miðað við fyrra ár. Mesta söluaukningu er að finna í Asíu eins og vænta mátti. Heildarhagnaður fyrirtækisins hefur einnig aukist verulega á þessu tímabili eða um 2,6% og nam hagnaðurinn alls 870 milljón evrum fyrstu sex mánuðina eða um 140 milljörðum króna. Fyrirtækið er í raun rekið í mörgum aðskildum markaðsdeildum þar sem sölustarfsemi ólíkra þátta er sjálfstæð. Þannig er t.d. vatnssölustarfsemi Danone í sér deild, mjólkurvörur í sér deild osfrv.
Fyrirtækið stefnir að því að auka söluna um 8% á árinu og lítur sú áætlun vel út sem stendur. Til þess að setja þetta risafyrirtæki í smá samhengi má geta þess að starfsmenn þess eru rúmlega 100 þúsund og rúmlega helmingur starfseminnar snýr að vinnslu afurða úr mjólk en fyrirtækið er einnig stórt á drykkjarvörumarkaði/SS.