Beint í efni

Dagur með bónda

08.02.2007

Í gær, 7. febrúar átti framkvæmdastjóri LK þess kost að fylgjast með verkefninu Dagur með bónda. Þá fór Ásthildur Skjaldardóttir, bóndi á Bakka á Kjalarnesi í heimsókn í 7. bekk Ingunnarskóla í Grafarholti í Reykjavík. Verkefnið snýst um að kynna grunnskólanemendum líf og starf kúabænda og nýtur það mikilla og vaxandi vinsælda. Í þessari viku fer Ásthildur í 4 heimsóknir í Ingunnarskóla og alls í hátt í 40 skólaheimsóknir á þessum vetri.

Verkefnið fer í stuttu máli þannig fram að nemendum er sýnt myndband sem tekið er heima á bænum. Þar má sjá hvernig mjaltir, gjafir og önnur fjósverk fara fram. Þá eru sýnd myndbrot af heyskap, kornskurði og kúasmölun. Sýnt er þegar kálfi er hjálpað í heiminn og einnig kemur dýralæknirinn í heimsókn og gerir keisaraskurð á einni kúnni. Bóndinn mætir líka með ýmis tæki og tól og sýnir börnunum, m.a. mjaltatæki, eyrnamerki, kálfapela, hálsband fyrir mjaltabás og kjarnfóðurbás, burðarlista úr Ískúnni, Bændablaðið, Nautaskrána og Frey. Þá fá nemendur nokkrar krukkur með sýnishornum af ýmsu sem notað er í búskapnum, s.s. áburði, kjarnfóðri, mjólkurdufti, grasfræi, byggi og júgursmyrsli. Eiga nemendur að giska á hvað sé í krukkunni og til hvers það sé notað. Einnig rakti Ásthildur ættir nokkurra kúa mjög ítarlega og vakti það mikla hrifningu, var sérstöku lofsorði borið hvað hún mundi nöfn margra gripa. Nemendum fannst heimsókn þessi auðsjáanlega mjög skemmtileg og lýstu eindregnum áhuga sínum „að koma bara aftur eftir hádegið líka, það mætti alveg nota náttúrufræðitímann“ til að fræðast um búskapinn. Það var mjög ánægjulegt að fylgjast með þessu verkefni og eiga þeir bændur sem taka þátt í því mikla þakkir skildar fyrir þeirra framlag.