Dagskrá aðalfundar Landssambands kúabænda 2012
14.03.2012
Dagskrá aðalfundar Landssambands kúabænda, sem haldinn verður á Hótel Selfossi 23. og 24. mars n.k. er komin á aðalfundarsíðu naut.is. Fundurinn verður settur kl. 10 árdegis föstudaginn 23. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa eru þrjú erindi á dagskrá fundarins. Kjartan Poulsen, kúabóndi og formaður Landsforeningen af danske mælkeproducenter flytur erindi um uppbyggingu, starfsemi og fjámögnun þessara systursamtaka LK í Danmörku. Þess má geta að Kjartan er Íslendingur að hálfu, móðir hans er fædd og uppalin hér á landi. Magnús B. Jónsson og Gunnfríður E. Hreiðarsdóttir nautgriparæktarráðunautar Bændasamtaka Íslands flytja erindi um framtíðarhorfur í kynbótastarfi nautgriparæktarinnar og Daði M. Kristófersson mun fjalla um verðlagningu mjólkur. Að kvöldi föstudags er kvöldverður fyrir aðalfundarfulltrúa og maka þeirra í boði Jötuns-Véla á Selfossi.
Nefndir fundarins starfa fyrir hádegi á laugardag og eftir hádegi er farið í afgreiðslu mála og kosningar. Áætluð fundarlok eru um kl. 17 á laugardag. Árshátíð LK verður síðan haldin á Hótel Selfossi um kvöldið og opnar húsið um kl. 19. Þeir sem ekki hafa pantað miða, eru minntir á að gera það hið fyrsta í síma 460 4477. Herbergjapantanir eru á Hótel Selfossi í síma 480 2500.
Fulltrúar eru minntir á að skýrslur og annað fundarefni er að finna á læstri síðu naut.is fyrir fulltrúa. Formenn aðildarfélaga hafa upplýsingar um aðgang að henni./BHB