Coca-Cola í skyrið líka?
19.10.2015
Í liðinni viku bárust fréttir af því að Coca-Cola hefði dregið sig út úr viðræðuhópi um kaup á hlutabréfum í fyrirtækinu Chobani. Það er líklega ekki sérlega fréttnæmt, þ.e. að einhver hætti við kaup á hlutabréfum en það að þetta stórfyrirtæki hafi velt fyrir sér kaupunum segir etv. eitthvað um hver fjárfestingastefna fyrirtækisins er. Chobani er nefninlega stærsti framleiðandi Bandaríkjanna á grísku jógúrti, sem svipar til skyrsins.
Það er greinilegt að stór alþjóðleg fyrirtæki ætla sér inn á þennan markað próteinríkra mjólkurafurða og til marks um það þá er t.d. fyrirtækið PepsiCo þegar byrjað framleiðslu á jógúrti með þýska afurðafélaginu Müller. Eins og áður segir hefur þó Coca-Cola dregið sig út úr hópi mögulegra fjárfesta, en ætla má að leit þeirra haldi áfram og að brátt verði fyrirtækið komið í framleiðslu á próteinríkum mjólkurafurðum/SS