Byggja kúabú fyrir 100 þúsund kýr!
31.07.2015
Fyrirtækið Modern Dairy Company hefur nú hafið byggingu lang stærsta kúabús í heimi en þar munu, þegar framkvæmdum lýkur, vera 100 þúsund mjólkurkýr! Bú þetta verður staðsett í norðausturhluta Kína og er búinu ætlað að sinna Rússlandsmarkaði. Fyrir er Modern Dairy Company með það bú sem í dag er stærst í heimi, alls 40 þúsund mjólkurkýr í Mudanjiang í Kína, svo forsvarsmenn fyrirtækisins þekkja það vel hvernig á að stjórna stórum kúabúum.
Eins og áður segir eru framkvæmdir hafnar við þetta risabú en kostnaðaráætlun hljóðar upp á 1 milljarð yuan sem svarar til um 22ja milljarða íslenskra króna. Kostnaður pr. mjólkurkú er því um 220 þúsund krónur sem hlýtur að teljast afar hagstætt enda oft miðað við að básinn með öllu kosti um 800 þúsund eða jafnvel meira en það. Til þess að afla fóðurs í þessar kýr þarf all nokkurt land en það munu Rússar leggja til í fyrstu, alls 100 þúsund hektara, og verður fóðrið svo flutt til Kína. Þess utan hafa Kínverjarnir tryggt sér aðgengi að 200 þúsund hekturum í viðbót sem á eftir að rækta upp og munu nýtast kúabúinu í framtíðinni. Áætluð framleiðsla búsins eru 800 milljónir lítra af mjólk á ári eða sem nemur 6-7 faldri íslensku mjólkurframleiðslunni.
Til fróðleiks má geta þess að stærsta kúabúið í Bandaríkjunum er með 30 þúsund mjólkurkýr, það stærsta í Bretlandi með um 2 þúsund mjólkurkýr og það stærsta í Danmörku um 1.800 mjólkurkýr/SS.