Búvís birtir áburðarverð
24.01.2013
Búvís birtir fyrstu áburðarverðskrá ársins í Bændablaðinu í dag og gildir hún til 4. febrúar n.k. Þegar sú verðskrá er borin saman við fyrstu verðskrá félagsins í fyrra, sem birt var 17. febrúar 2012, má sjá að verðhækkun er tiltölulega lítil milli ára; pöntunarverð á tegundinni Völlur 20-10-10 + S er nú 80.770 kr/tonn en var fyrir ári 79.060 kr/tonn, hækkunin er 2,1%. Kraftur 34 kostar nú 64.780 en kostaði fyrir ári 64.550, hækkunin er 0,4%.
Í fréttaskeyti frá Kornbasen.dk frá því í gær, kemur fram að áburðarverð hafi farið lækkandi á undanförnum mánuðum. Sala á köfnunarefnisáburði í NV-Evrópu hafi verið 15-20% minni en venja er til á þessum árstíma. Einnig kemur fram að verð á fosfóráburði hafi lækkað um 10-15% á undanförnu ári, sökum þess að Kína og Indland hafi haldið að sér höndum í innkaupum að undanförnu. Verð á kalí fari einnig lækkandi, að sömu ástæðum og fosfórinn. Sú lækkun sé nálægt 15%.
Gengi krónunnar er 8-9% lægra en það var fyrir um ári síðan, en væntanlega vega verðlækkanir erlendis upp á móti, þannig að áburðarreikningur bænda verði svipaður og vonandi örlítið lægri en fyrir ári síðan. Það væri í sjálfu sér ánægjuleg tilbreyting, þar sem undanfarin ár hefur hækkun á áburði einatt verið mæld í tveggja stafa tölum milli ára./BHB