Bústólpi hækkar verð á kjarnfóðri um 9-13%
22.10.2008
Tilkynning frá Bústólpa ehf.
„Verð hækkaði á fóðri hjá Bústólpa frá og með gærdeginum 21. október. Hækkunin nemur 9 – 13% á helstu fóðurtegundunum.
Þessar hækkanir nú eru til komnar vegna mikils falls á gengi krónunnar á undanförnum vikum, en við síðustu verðlagningu á fóðri var t.d. gengi Evru 122 kr en er nú yfir 150. Verðhækkunin nú endurspeglar því ekki nema hluta af hækkunarþörfinni og sett fram í þeirri trú að gengi krónunnar eigi eftir að styrkjast er markaðir róast. Á móti vega einnig umtalsverðar lækkanir á hveiti og byggi á erlendum mörkuðum sem eru að koma inn í ferlana nú með losun skipa þessa dagana. Önnur hráefni eins og t.d. maís, sojamjöl, vítamín og steinefni eru enn mjög hátt verðlögð á markaði.
Hækkanir á helstu vörum eru:
Alhliðablanda, Orkublanda, Kraftblanda og Orkuköglar – 12% hækkun
DK-16, Lágpróteinblanda og Kúamix kurl – 13% hækkun
SP kögglar, Alhliðakögglar – 11% hækkun
Kálfakögglar, Reiðhestablanda, Ungafóður og Andagóður – 9% hækkun
Kögglað bygg – 2% hækkun“
Eftir þessa verðhækkun er verð á 16% hefðbundinni blöndu, með bestu afsláttarkjörum 68,48 kr/kg hjá Bústólpa, hjá Fóðurblöndunni er verðið 68,64 kr/kg og hjá Líflandi er verðið 68,96 kr/kg. Hækkunin er rúmlega 7 kr/kg frá síðustu hækkun þessara fyrirtækja í júní og júlí sl. Hjá SS er verð á 16% blöndu frá DLG í Danmörku 59,35 kr/kg. Þar hefur sama verðskrá verið í gildi frá 29. maí.