Beint í efni

Búnaðarþing sett á sunnudag

26.02.2009

Búnaðarþing verður sett sunnudaginn 1. mars næstkomandi klukkan 13.30 í Súlnasal á Hótels Sögu. Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, flytur setningarávarp en yfirskrift setningarathafnarinnar að þessu sinni verður „Treystum á landbúnaðinn“. Emma Eyþórsdóttir dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands mun flytja hátíðarræðu og Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun sömuleiðis ávarpa samkomuna. Ráðherrann mun svo veita landbúnaðarverðlaunin fyrir árið 2009.
 
Tónlistarflutningur verður í fyrirrúmi á hátíðardagskránni og mun eyfirski kvennakórinn Embla syngja undir stjórn Roars Kvam. Sömuleiðis mun tríó skipað þeim Patrycju B Szalkowicz Mochola, Elvu Björk Magnúsdóttur og Ingileif Egilsdóttur flytja nokkur lög en þær spila á flautur og klarinett. Allir bændur eru boðnir velkomnir á setningarathöfn þingsins.

Styttra og snarpara þing
Ákveðið var að stytta Búnaðarþing um einn dag í ár og mun það standa frá sunnudegi til miðvikudagseftirmiðdags. Því verður þingfundur settur strax á sunnudegi eftir setningarathöfnina. Talsverður fjölda mála liggur fyrir þinginu og má búast við að umræður um Evrópusambandsmál verði fyrirferðarmiklar. Búnaðarþing ályktaði síðast sérstaklega um mögulega aðild að Evrópusambandinu árið 2003. Ljóst er að allur þorri bænda leggst einarður gegn aðild og í ljósi umræðu um málið á síðustu misserum mun Búnaðarþing taka til þess afstöðu á nýjan leik. Jafnframt má gera ráð fyrir að umfangsmikil umræða fari fram um rekstrarumhverfi íslensks landbúnaðar en þar er rekstrarvandinn verulegur nú um stundir. Í því samhengi má nefna að fyrir þinginu liggja mál sem fjalla um Bjargráðasjóð, búnaðargjald, raforkuverð og fjármagnskostnað auk annarra tengdra mála.