Beint í efni

Búnaðarþing samþykkir samhljóða sameiningu búgreinafélaga og Bændasamtaka Íslands

23.03.2021

Búnaðarþing BÍ samþykkti í dag tillögu um nýtt félagskerfi bænda og munu Bændasamtök Íslands (BÍ) og búgreinafélög sameinast undir merkjum BÍ. Málið var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Markmið sameiningarinnar er aukin skilvirkni félagskerfis bænda og efling hagsmunagæslu í landbúnaði. Nýjar samþykktir BÍ, þingsköp Búnaðarþings og Búgreinaþings verða nú lögð fyrir aðalfundi búgreinafélaga og svo til samþykktar á aukabúnaðarþingi Bændasamtakanna sem haldið verður þann 10. júní 2021.

Búnaðarþing Bændasamtaka Íslands fór fram dagana 22. og 23. mars á Hótel Sögu undir yfirskriftinni Áfram veginn en 52 þingfulltrúar mættu hvaðanæva að af landinu. Mikil samstaða myndaðist meðal bænda á þinginu sem stefna einhuga að því að þétta raðirnar og ganga samstíga áfram veginn inn í framtíðina. Veigamestu mál þingsins sneru að félagskerfisbreytingum bænda og sameiningu búgreinafélaga og  Bændasamtaka Íslands. Með breytingunni næst aukin skilvirkni í félagskerfi bænda  og verður hagsmunagæsla í landbúnaði efld til muna.

Ingvar Björnsson tekur til máls um rannsóknir á kolefnisspori í íslenskum landbúnaði.

Eftirfarandi mál voru borin upp til samþykktar, en tillögur ásamt greinargerðum má hér að neðan:

  • Búgreinafélög sameinast Bændasamtökunum
  • Skorað á Alþingi að auka fjármagn til rannsókna á kolefnisspori í íslenskum landbúnaði
  • Efling vísinda-, mennta-, og rannsóknarstarf í landbúnaði
  • Komið verði á afleysingaþjónustu fyrir bændur
  • Nýliðun í landbúnaði verði tekin fyrir við endurskoðun búvörusamninga
  • Farið verði í heildstæða endurskoðun á tryggingarmálum bænda
  • Réttur til að verjast sýklalyfjaónæmi
  • Rannsóknir á kolefnisspori í íslenskum landbúnaði

Búnaðarþing 2021 telur brýnt að auka þekkingu og skilning á kolefnisferlum í íslenskri landbúnaðarframleiðslu. Þar þurfa innlendar vísindastofnanir að stíga fram með haldbærri þekkingu og hagnýtum lausnum. Búnaðarþing 2021 beinir því til Alþingis að auka fjármagn til rannsókna á kolefnisspori íslensks landbúnaðar. Búnaðarþing 2021 beinir því til Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) að taka forystu í rannsóknum á losun og bindingu kolefnis í landbúnaði á Íslandi. Búnaðarþing 2021 beinir því til LbhÍ að búrekstur skólans verði fyrirmynd í loftslagsvænum aðgerðum.

  • Þróun vísindastarfs í landbúnaði

Styrkja þarf samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar með öflugra vísinda- mennta- og rannsóknastarfi í greininni.

Leiðir

  • Afla þarf upplýsinga um fjármögnun á vísinda- og rannsóknarstarfi í löndunum í kringum okkur.

  • Skoða hvernig nýtingu á þróunarfé búgreinanna skv. 11. gr. Rammasamnings um almenn skilyrði landbúnaðarins sé best fyrir komið.

  • Skoða fýsileika þess að vísinda- og rannsóknarstarf sé að hluta til fjármagnað með framlagi frá bændum líkt og þekkist víða erlendis.

  • Auka þarf áherslu á hagnýtar landbúnaðarrannsóknir.

  • Tryggja þarf miðlun fagefnis á skilvirkan hátt til bænda.

Stjórn BÍ er falið að kynna sér þessi mál og leggja fram greinargerð á búnaðarþingi 2022.

  • Afleysingaþjónusta fyrir bændur

Búnaðarþing 2021 samþykkir að koma á afleysingaþjónustu fyrir bændur vegna veikinda eða slysa. Lagt er til að gerður verði samningur milli Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga, Vinnumálastofnunar og Bændasamtaka Íslands um fjárstuðning vegna afleysinga ef upp koma veikindi, slys eða önnur óvænt áföll í búrekstri, sem valda því að bændur geti af þeim sökum ekki sinnt búum sínum.  

  • Nýliðun í landbúnaði  

Búnaðarþing 2021 ályktar að styðja þurfi betur við nýliðun í landbúnaði.  Er stjórn BÍ falið að vinna að málinu meðal annars í tengslum við endurskoðun búvörusamninga. Lagt er til að unnin verði úttekt á því hvernig núverandi fyrirkomulag hefur reynst í ljósi fjölda umsókna og þeirra fjármuna sem hafa verið til úthlutunar. Niðurstöður úttektarinnar verði nýttar í endurskoðun Rammasamnings í samstarfi við Samband ungra bænda og Ráðgjafarmiðstöðvar í landbúnaðar. 

  • Aukin tryggingavernd bænda   

Búnaðarþing 2021 kallar eftir heildstæðri endurskoðun á tryggingamálum bænda, þar með talið á lögum um Bjargráðasjóð. Markmiðið er að auka tryggingavernd bænda, fyrirsjáanleika og skilvirkni við uppgjör á tjónum í landbúnaði.  Stjórn BÍ er falið að kalla eftir því að skipaður verði starfshópur með fulltrúum BÍ, tryggingafélaga, Náttúruhamfaratryggingu Íslands og ráðuneyta þar sem farið verði heildstætt yfir tryggingamál bænda.   

  • Sýklalyfjaónæmi

Búnaðarþing 2021 krefst þess að íslensk stjórnvöld láti heilbrigði landsmanna njóta vafans umfram viðskiptahagsmuni innflutningsaðila þegar kemur að sjúkdómavörnum á Íslandi. 
 
Í greinargerð kemur fram að sýklalyfjaónæmi sé orðin ein stærsta heilbrigðisógn í heiminum í dag. Því hvetji Búnaðarþing stjórnvöld til þess að gæta hagsmuna bænda í þessu mikilvæga máli og standa fast á réttinum til þess að verjast sýklalyfjaónæmi eins og kostur er.

Frekari upplýsingar veitir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands í síma 892-7309 eða á gunnar@bondi.is