Beint í efni

Búnaðarþing samþykkir sameiningu á leiðbeiningaþjónustu bænda

30.10.2012

Búnaðarþing samþykkti í gær á aukaþingi að sameina leiðbeiningaþjónustu bænda í eitt félag sem stefnt er að taki til starfa um næstu áramót. Sameiningin er gerð í kjölfar ályktana búnaðarþings þar að lútandi og byggir hún á ítarlegri greiningarvinnu danska ráðgjafans Ole Kristensen og enn frekari vinnu milliþinganefndar og verkefnisstjórans Ágústar Þorbjörnssonar, sem skiluðu tillögum að uppbyggingu og skipulagi til búnaðarþings. Þær tillögur hafa verið kynntar ítarlega á fundum Bændasamtakanna að undanförnu, sem og á haustfundum LK.

 

Niðurstaða þess var að samþykkja svofellda tillögu um málið:

Búnaðarþing – aukaþing 2012, samþykkir að stofna félag um leiðbeiningaþjónustu bænda. Félagið verði í eigu Bændasamtaka Íslands, en með sjálfstæðri stjórn og fjárhag. Stjórn félagsins skulu skipa framkvæmdastjóri BÍ auk fjögurra fulltrúa sem þingið velur. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. Umboð stjórnar gildir til búnaðarþings 2013. Þingið felur stjórninni að ljúka nauðsynlegri undirbúningsvinnu og samningagerð til að starfsemi félagsins geti hafist í byrjun næsta árs. Búnaðarþing heimilar stjórn BÍ framsal fjármuna af búnaðargjaldi samtakanna og aðra fjármuni til stofnunar og rekstrar.

Búnaðarþing – aukaþing 2012, felur stjórn og starfsmönnum hins nýja félags að leggja áherslur í starfi og uppbyggingu þess. Í þeirri vinnu verði m.a. tekið mið af þeim greiningum og tillögum sem fram hafa komið á fyrri stigum.

Framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, Eiríkur Blöndal, verður formaður stjórnar en aðrir stjórnarmenn eru kjörnir af búnaðarþingi. Þeir eru Guðbjörg Jónsdóttir á Læk, Guðmundur Bjarnason á Svalbarði, Guðný H. Jakobsdóttir í Syðri-Knarrartungu og Sveinn Sæland á Espiflöt. Varamenn eru Björn Halldórsson á Akri, Guðrún Lárusdóttir í Keldudal, Jóhannes Sveinbjörnsson í Heiðarbæ og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson í Bakkakoti./BHB