Beint í efni

Búnaðarþing með breyttu sniði

07.02.2018

Búnaðarþing verður sett í Súlnasal Hótel Sögu mánudaginn 5. mars nk. Það verður með nokkuð öðrum hætti en fyrri ár. Lagt er upp með tveggja daga þing en ekki þriggja eins og árið 2016. Enn fremur verður setningin styttri og umfangsminni en áður og fer nú fram í nýuppgerðum Súlnasal í Bændahöllinni en ekki í Hörpu.
 
Setningin hefst kl. 10.30 mánudaginn 5. mars og stendur fram að hádegi. Önnur þingstörf hefjast kl. 13 og standa fram til 16.30  þegar nefndastörf hefjast. Þriðjudaginn 6. mars hefjast nefndastörf kl. 8.30 en þingstörf kl. 10.00 og standa fram eftir degi. Kosningar eru eftir hádegi þann dag. 
Pappírslaust Búnaðarþing
 
Engum gögnum verður dreift á pappír á Búnaðarþingi nema í undantekningatilvikum. Þingfulltrúar geta nálgast öll gögn þingsins á tölvutæki formi á skýi og unnið með í sínum fartölvum. 
 
Stjórn BÍ mun funda 15. febrúar og skipta fulltrúum niður í nefndir. Í framhaldinu munu nefndirnar taka til starfa við að skoða þau mál sem vísað verður til þeirra. Þar sem fulltrúar og nefndir fá styttri tíma til að fara yfir málin á þinginu sjálfu munu gögn verða aðgengileg á lokuðu svæði á netinu með góðum fyrirvara.