Búnaðarþing: Kornræktarstuðningur aukinn verulega
11.03.2005
Búnaðarþingi lauk í gærkvöldi með afgreiðslu nokkurra mála. Eitt af þeim er um eflingu kornræktar en fjörugar umræður urðu um málið, sérstaklega með hvaða hætti ætti að fjármagna stuðning við kornrækt. Þingheimur náði að lokum mjög farsælli lausn fyrir íslenskan landbúnað, sem víðtæk sátt var um meðal þingmanna, og var tillagan samþykkt samhljóða. Þingið leggur til að stuðningur
næstu tveggja ára verði sem næst með eftirfarandi hætti:
Á árinu 2005 verði greiddur 50 þúsund króna býlisstyrkur til þeirra búa sem sá korni til þreskingar í minnst 2 hektara. Áætlað er að kostnaður við þessar greiðslur nemi nálægt 25 milljónum króna og mun það fjármagn koma frá búnaðarlagasamningi.
Á árinu 2006 verði kornstuðningur hinsvegar tvískiptur:
– greiddur verði 30 þúsund króna býlisstyrkur til þeirra búa sem sá korni í minnst 3 hektara og er áætluð fjárþörf vegna þessa nálægt 15 milljónum króna.
– jafnframt verði greiddur stuðningur á hvern hektara þess korns sem þreskt er af. Til þessa verði varið allt að 40 milljónum króna en þó getur stuðningur á hvern þresktan hektara ekki orðið hærri en 20 þúsund krónur.
Fjármagn vegna stuðningsins árið 2006 mun koma frá búnaðarlagasamningi og ef til vill að hluta frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins.
Smelltu hér til að tengjast heimasíðu BÍ með afgreiddum tillögum frá Búnaöarþingi