
Búnaðarþing kallað saman til að breyta samþykktum BÍ
25.11.2016
Aukabúnaðarþing var haldið í Bændahöllinni og á Akureyri fimmtudaginn 24. nóv. sl. Aðeins eitt mál var á dagskrá, samþykktarbreytingar vegna innheimtu félagsgjalda nú þegar búnaðargjaldið leggst af um áramót. Ákveðið var að almennt félagsgjald verði 3.500 krónur á mánuði (samtals 42 þúsund krónur á ári) á hvert bú.
Í tvennu tilliti var þingið sérstakt - í fyrsta sinn var kona þingforseti og notast var við fjarfundarbúnað í fyrsta skipti. Það var Oddný Steina Valsdóttir, sauðfjárbóndi, sem stjórnaði þinginu fyrst kvenna.
Samþykktarbreytingarnar gengu út á að heimila föst félagsgjöld til aðildarfélaga BÍ. Áður var lagt upp með veltutengt gjald en sú reyndist ófær þegar til kastanna kom.
Strax eftir áramót munu forsvarsmenn Bændasamtakanna fara í fundaferð um landið og kynna bændum nýtt fyrirkomulag félagsgjalda.
Nánari útfærsla á félagsgjöldum er tilgreind í nýjum samþykktum BÍ.