Beint í efni

Búnaðarþing á næsta leiti

23.02.2010

Árlegt Búnaðarþing Bændasamtaka Íslands hefst sunnudaginn 28. febrúar og stendur til miðvikudagsins 3. mars. Búnaðarþing verður sett með viðhöfn á sunnudaginn en yfirskrift setningarathafnarinnar er „Aftur kemur vor í dal“. Í vikunni verða hefðbundin þingstörf þar sem m.a. verður fjallað um mál sem tengjast umsókn stjórnvalda að Evrópusambandinu, jarðalögum, fjármálum bænda og uppbyggingu félagskerfis þeirra.

Setning Búnaðarþings fer fram í Súlnasal Hótels Sögu sunnudaginn 28. febrúar og hefst kl. 13:30. Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, heldur setningarræðu og Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra flytur ávarp og veitir árleg landbúnaðarverðlaun. Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, flytur hátíðarræðu og Þjóðlagasveit Tónlistarskóla Akraness tekur lagið. Aðgangur er öllum opinn meðan húsrúm leyfir og í boði eru kaffiveitingar.

Búnaðarþingi verður gerð skil á vefnum www.bondi.is þegar þingstörf hefjast. Á vefnum verður birt dagskrá þingsins, ræður, fundargerðir og upplýsingar um afgreiðslu mála um leið og þær berast.