Beint í efni

Búnaðarþing 2010 – Aftur kemur vor í dal

28.02.2010

Búnaðarþing var sett við hátíðlega athöfn í Bændahöllinni í dag. Þar héldu ávörp Haraldur Benediktsson formaður BÍ, Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Brita Skallerud annar tveggja varaformanna norsku bændasamtakanna Norges bondelag og Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís. Einnig voru veitt landbúnaðarverðlaun sem ábúendurnir á bæjunum Hraun á Skaga og Grænhóli í Ölfusi hlutu að þessu sinni. Þjóðlagasveit Tónlistarskólans á Akranesi kom sá og sigraði með hressilega fiðlutóna.

Í ræðu Haraldar Benediktssonar var skýrt frá niðurstöðum nýlegrar könnunar sem Capacent vann fyrir Bændasamtökin. Um var að ræða fimm spurningar í spurningavagni Capacent. Niðurstöður könnunarinnar undirstrikar mikilvægi íslensks landúnaðar og neikvæða afstöðu til aðildar Íslendinga að Evrópusambandinu.

Samkvæmt könnuninni hefur framtíð íslensks landbúnaðar áhrif á afstöðu fólks til aðildar Íslands að Evrópusambandinu, en 55,9% landsmanna eru andvígir inngöngu landsins í Evrópusambandið en 33,3% hlynntir aðild. Hátt í 60% landsmanna segjast ekki bera neitt eða lítið traust til sttjórnvalda þegar kemur að því að gæta hagsmuna þjóðarinnar í umsóknarferli um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru:

95,7% svarenda telja að það skipti miklu máli að landbúnaður verði stundaður hér á landi til framtíðar.

84,3% telja að það skipti miklu máli að Íslendingar séu ekki öðrum háðir um landbúnaðarafurðir.

55,9% aðspurðra eru andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu, 33,3% eru hlynntir aðild Íslands að Evrópusambandinu og 10,8% óákveðin.

62,8% segja að framtíð íslensks landbúnaðar hafi mikil eða nokkur áhrif á afstöðu sína til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

57,9% svarenda segist treysta íslenskum stjórnvöldum illa eða alls ekki til að gæta hagsmunum þjóðarinnar í umsóknarferlinum um aðild Íslands að Evrópusambandinu, aðeins 26,8% segjast treysta stjórnvöldum vel eða að öllu leyti.

Meðfylgjandi eru niðurstöður könnunarinnar á rafrænu formi, en úrtakið var 1173 manns á landinu öllu, 16-75 ára, handahófsvalið úr þjóðskrá.

Ræða Haraldar Benediktssonar

Ræða Sjafnar Sigurgísladóttur

Ræða Britte Skallerud

Skoðanakönnun Capacent