Beint í efni

Bullandi sala á rjómaskyri í Danmörku

24.11.2014

Fyrr á árinu setti danska afurðafélagið Thise Mejeri á markað nýja skyrtegund þar í landi, Rjómaskyr. Skyrið er markaðssett upp á íslensku og stendur einfaldlega á umbúðunum ”Rjóma Skyr”. Þó svo að fæstir Danir hafi hugmynd um hvað ”Rjómi” er, enda heitir hann ”Fløde” á dönsku, þá hefur salan á þessari skyrtegund gengið ótrúlega vel að sögn markaðsstjóra Thise, Mogens Poulsen.

 

Hingað til hefur hið danska rjómaskyr verið selt í verslunum sem kallast Irma, en þær búðir eru með sterka ímynd gæða og verðlag varanna í búðunum í hærra lagi. Nú hafa forsvarsmenn Thise ákveðið að markaðssetja Rjóma Skyr um allt land á næsta ári. Markaðssetningin byggir mikið til á íslenskum gildum og segir m.a. í umsögn um þessa rammíslensku skyrgerð að við Íslendingar borðum víst rjómaskyr í tíma og ótíma og það m.a. með rúsínum og púðursykri. Þá vitum við það! Þess má geta að Thise framleiðir skyr með sérleyfi frá MS og borgar því þóknun til MS í hvert skipti sem skyr er framleitt/SS.