Beint í efni

Búgreinaþing haldið í fyrsta sinn 3. og 4. mars

02.03.2022

Búgreinaþing búgreinadeilda Bændasamtaka Íslands er nú haldið í fyrsta sinn á Hótel Natura í Reykjavík, dagana 3. og 4. mars, þar sem bændur allra búgreina koma saman til þings um málefni íslensks landbúnaðar undir yfirskriftinni Samstíga landbúnaður. Setningarathöfn verður klukkan 11:00 fimmtudaginn 3. mars þar sem Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra og Stefán Vagn Stefánsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis flytja erindi.

Eftir sameiningu búgreinafélaganna og Bændasamtaka Íslands síðastliðið sumar, mynda félögin nú deildir innan samtakanna sem starfa í breyttu félagskerfi bænda. Markmið sameiningarinnar var aukin skilvirkni félagskerfis bænda og efling hagsmunagæslu í landbúnaði. Rúmlega 200 bændur allsstaðar að af landinu og úr öllum búgreinum koma saman á þinginu þar sem helstu málefni íslensks landbúnaðar, stefnumörkun og framtíðarsýn verða rædd. Þar að auki kynna fyrirtæki í landbúnaði vörur sínar og þjónustu og því sannkölluð bændahátíð í hjarta höfuðborgarinnar.


Tækifæri í íslenskum landbúnaði

 „Á nýju starfsári verður áfram unnið að eflingu í starfi Bændasamtakanna. Margt hefur áunnist á síðustu mánuðum og önnur og veigamikil verkefni eru framundan. Við þurfum að tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar, efla afkomu bænda og taka þátt af fullum krafti í loftlags- og umhverfismálum. Við þurfum einnig að tryggja sérþekkingu og virði, að til staðar séu aðilar með sérþekkingu á starfsumhverfi landbúnaðar og að afurðir séu í takt við óskir neytenda. Það er afar mikilvægt að þeir sem starfa við, eða í tengslum við landbúnað tileinki sér þá hugsun sem býr að baki því að standa vörð um frumframleiðslu íslenskra landbúnaðarafurða og líti á það sem tækifæri fyrir atvinnugreinina til þess að ná enn frekari árangri fyrir landbúnaðinn í heild sinni.“