Beint í efni

Búa sig undir afnám mjólkurkvóta

11.03.2011

Alþjóðlega mjólkurafurðastöðin MUH (Milch-Union Hocheifel), sem er framleiðenda samvinnufélag kúabænda, undirbýr sig að krafti fyrir væntanlegt afnám mjólkurkvótans í Evrópu árið 2015. Félagið hefur nú tilkynnt áform um nærri 10 milljarða króna fjárfestingu (60 milljón Evrur) á næstu þremur árum við afurðastöð sína í Pronsfeld í Þýskalandi.

 

MUH er mjög stórt félag og tekur á móti ríflega milljarði lítrum af mjólk frá 2.700 kúabændum í Þýskalandi, Frakklandi, Belgíu og Lúxemborg. MUH, rétt eins og fleiri af stærri félögum í mjólkurvinnslu, gerir ráð fyrir töluvert aukinni

innvigtun mjólkur eftir afnám kvótans og þarf því að auka við framleiðslugetuna. MUH þekkir reyndar vel aukna innvigtun en félagið hefur aukið framleiðsluna um 6% að meðaltali á ári frá árinu 2000 og árið 2010 nam aukningin 10% hjá félaginu.

 

Fjárfestingarnar næstu árin snúa að aukinni móttöku og geymslugetu, bættri framleiðsluaðstöðu og nýrri duftverksmiðju sem mun framleiða hágæða mjólkurduft. Þá kallar aukin innvigtun á töluvert mikla umsetningu á mjólkurfitu sem MUH mun mæta með nýrri og öflugri smjörframleiðslulínu, sem er þó enn sem komið er bara á teikniborðinu.